Mannlíf

Starfsemi félagsmiðstöðva fyrsta skrefið í átt að velferð ungmenna
Starfsmenn Samsuð bænum Tampere í Finnlandi
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 28. október 2022 kl. 11:00

Starfsemi félagsmiðstöðva fyrsta skrefið í átt að velferð ungmenna

„Svona ferðir skipta gríðarlega miklu máli. Ísland er sér á parti og það er margt mikilvægt starf í gangi annars staðar í Evrópu og það er ekki síður mikilvægt að við sjáum það betur,“ segir Ólafur Bergur Ólafsson. Ólafur er starfsmaður Fjörheima og verkefnisstjóri vettvangsheimsóknar sem starfsmannahópur félagsmiðstöðva á Suðurnesjum fór í á dögunum. Hópurinn ferðaðist um Pirkanmaa-héraðið í Finnlandi og fékk að kynnast ungmennastarfi á svæðinu. 

Starfsmenn Samsuð héldu í vettvangsheimsóknina fyrr í október á vegum Erasmus+, sem hvetur til samstarfs milli landa í Evrópusambandinu. Samsuð eru Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum, samstarf félagsmiðstöðvanna hefur verið til staðar í gegnum árin en nú var haldið til Finnlands til að auka þekkingu starfsmanna Samsuð og búa til vettvang fyrir frekara samstarf milli félagsmiðstöðvanna á Suðurnesjum. Þá var tilgangurinn einnig að opna á tækifæri fyrir frekara samstarf milli Suðurnesja og Pirkanmaa-héraðsins þegar kemur að málum ungmenna. Ólafur segir heimsóknir eins og þessa vera einkar mikilvægar enda sé hægt að læra mikið í nýju umhverfi.

Hvað var á dagskrá fyrir ykkur í heimsókninni?

„Við fengum fyrirlestra og kynningar um allskonar starfsemi og úrræði fyrir börn og ungmenni á Tampere-svæðinu. Við erum búin að vera að skoða hvað Finnarnir eru að gera gott og hvað við á Suðurnesjum getum gert betur. Þá sérstaklega fyrir félagslega einangraða og innflytjendahópinn, sem er mjög stór á Suðurnesjum miðað við önnur svæði.“

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Hópurinn fékk kynningar á starfsemi félagsmiðstöðva á svæðinu og námsleiðum fyrir ungmennastarf í Finnlandi

Hvert var aðalmarkmið ferðarinnar?

„Aðalmarkmiðið var að sjá hvað við getum nýtt okkur á Suðurnesjum og hvar við getum bætt okkur í samstarfi við önnur sveitarfélög eða aðrar stofnanir innan Suðurnesja. Tilgangurinn var líka að hópurinn kynnist aðeins betur og að geta opnað á tækifæri að vinna meira saman náinni framtíð.“

Hvers vegna eru svona ferðir mikilvægar fyrir ykkur sem starfsmenn?

„Svona ferðir skipta gríðarlega miklu máli. Við sóttum sjálf um styrk á vegum Erasmus fyrir ferðinni og það er heilmikið lærdómsferli í því. Það er líka mikilvægt að sjá hvað aðrir eru að gera, Ísland er ekki sér á parti og það er margt mikilvægt starf í gangi annars staðar í Evrópu og það er ekki síður mikilvægt að við sjáum það betur.“

Hver er helsti munurinn á starfinu í Finnlandi og heima að þínu mati?

„Ég held að helsti munurinn sé sá að finnska samfélagið tekur þessu starfi alvarlega og starfið er þeim mjög mikilvægt og inngróið í það hvernig samfélagið virkar. Á sama tíma held ég að íslenski almenningurinn sé ekki alveg búinn að kveikja á hversu mikilvæg þessi starfsemi er fyrir börn og ungmenni. Það er eitthvað sem við þurfum að vera betri í og láta heyra í okkur til að láta fólk vita hvað þetta er mikilvægt. Þetta starf skiptir máli því starfsemi félagsmiðstöðva er í raun fyrsta skrefið í átt að velferð ungmenna hér í Finnlandi. Þannig þetta er gríðarlega mikilvægt og mörg tækifæri í boði fyrir okkur.“

Blaðamaður Víkurfrétta talaði einnig við þau Ellen Lind Ísaksdóttur, starfsmann félagsmiðstöðvarinnar í Vogum, og Elmar Þór Þórisson, starfsmann félagsmiðstöðvarinnar í Reykjanesbæ. Þau segja þónokkurn mun vera á starfinu heima og úti.

Ellen og Elmar, starfsmenn félagsmiðstöðva á Suðurnesjum

„Eitt sem ég tók sérstaklega eftir er munurinn á starfi fyrir eldri en sextán ára, hjá þeim er miklu meira í gangi fyrir sextán til 29 ára. Starfsemin er mjög góð hjá þeim, þau eru mikið í því að reyna að koma fólki inn á vinnumarkaðinn og í nám. Þau hafa samband við alla sem detta úr skóla, hætta í vinnu eða eru ekki í neinum kerfum. Það er fundið þá aðila og reynt að koma þeim inn í skipulagt starf,“ segir Elmar og Ellen bætir við: „Það er haldið rosalega utan um þá sem detta út úr skólakerfinu og eru atvinnulausir, þeir reka eftir því að þeir geri eitthvað og halda þeim í raun af götunni.“

Aðspurð hvað ferðin gerði fyrir starfsmennina sem hóp segir Ellen: „Þetta opnaði augu okkar fyrir því hvað það er mikið sem hægt er að gera, sama hvort það sé í lítilli félagsmiðstöð eða stórum eins og við höfum séð í Finnlandi. Þetta stækkaði svolítið hugann fyrir möguleikum.“ Elmar tekur undir með henni og bætir við: „Þetta var líka gott upp á að kynnast starfsmönnum hinna félagsmiðstöðvanna. Ég til dæmis þekkti Ellen ekki neitt fyrir þetta en nú er ég búinn að eignast góðan vin.“

Vinirnir Ellen og Elmar

Ýtarlegt sjónvarpsviðtal við starfsmenn félagsmiðstöðva á Suðurnesjum og fulltrúa alþjóðamála hjá Marttinen má sjá hér að neðan