Mannlíf

Laxableikur fermingarkjóll með doppum
Sunnudagur 10. mars 2024 kl. 08:35

Laxableikur fermingarkjóll með doppum

Thelma Hrund Hermannsdóttir fermdist árið 2011 í Keflavíkurkirkju. Séra Skúli Sigurður Ólafsson sá um athöfnina.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?

Ég man helst eftir spennunni, maður beið svo lengi eftir þessum degi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju léstu ferma þig?

Þegar stórt er spurt, ég viðurkenni að ég trúi svolítið eftir hentugleika en ætli það hafi ekki verið aðallega fyrir stemninguna.

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Það var mikið lagt í boðskortin fyrir fermingarveisluna. Ég fór í myndatöku og ein af myndunum var notuð á kortið. Restin af myndunum voru svo í albúmi fyrir gesti til að skoða í veislunni. Ég man sáralítið frá fermingarfræðslunni en ferðin í Vatnaskóg stóð upp úr.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Það var haldin lítil krúttleg veisla í heimahúsi. Heimilinu var umturnað, borðum og stólum komið upp hér og þar og minnti helst á kaffihús, það var frekar krúttlegt og eftirminnilegt.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Það sem kemur fyrst upp í hugann er sæng og koddi sem ég fékk frá ömmu og afa, klárlega mest notaða gjöfin.

Manstu eftir fermingarfötunum eða greiðslunni?

Heldur betur, ég var í kjól sem var vissulega ekki í tísku því ég vildi alls ekki vera í eins fötum og hinir. Hann var laxableikur með doppum, ágætlega hallærislegur en gæti svo sem verið verri.

Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?

Já ég ætla að skella mér í eina.