Mannlíf

Laumaði sér úr fermingarveislunni út í hesthús
Sunnudagur 10. mars 2024 kl. 08:13

Laumaði sér úr fermingarveislunni út í hesthús

Guðbrandur Einarsson fermdist árið 1972 í Keflavíkurkirkju en séra Björn Jónsson sá um athöfnina. Fermingarbarninu þótti veislan lítið spennandi og laumaði sér upp í hesthús, þar sem fermingargjöfin var reyndar geymd.

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?

Ætli það sé ekki fermingargjöfin sem ég hafði vitneskju um að biði mín.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju léstu ferma þig?

Kannski ekki einfalt svar við því. Maður fylgdi bara straumnum á þessum tíma enda létu allir ferma sig. Að eiga von á gjöfum skemmdi örugglega ekki fyrir.

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Fermingarundirbúningurinn var örugglega bara hefðbundinn, við mættum í kirkjuna og þuldum upp það sem við höfðum lært utan bókar s.s. eins og trúarjátninguna en við vorum hins vegar nokkrir í þessum hópi sem höfðum uppi einhverjar efasemdir um sköpunarsöguna, Adam og Evu og tilvist Guðs. Það var örugglega talsvert verkefni fyrir séra Björn að eiga við okkur og við létum segjast að lokum.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Já já það var haldinn þessi fína veisla en mér fannst hún ekkert voðalega spennandi, enda fór það svo að ég laumaði mér úr veislunni og  upp í hesthús sem þá voru bara rétt hjá heimilinu mínu þar sem er verið byggja nýjan leikskóla og mörg fjölbýlishús og kallast nú Hlíðahverfi.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Já, ég fékk hest í fermingargjöf frá mömmu og pabba og þeirri gjöf gleymi ég aldrei. Peningarnir sem ég fékk einnig voru svo nýttir til að kaupa mér úrvals hnakk og þar með var ég orðinn fullgildur í samfélagi hestamanna sem áttu sín hesthús á þessu svæði. Margir þeirra eru mér minnistæðir enn þann dag í dag. Hestinn átti ég í einhver ár en hann var síðan seldur til þess að fjármagna kaup á rafmagnspíanói og sú della fylgir mér enn.

Manstu eftir fermingarfötunum eða klippingunni?

Það voru keypt fjólublá jakkaföt af þessu tilefni og toppurinn var síðan þverklipptur eins og örugglega var í tísku á þeim tíma.

Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?

Ekki svo ég viti en þær hafa flest árin verið nokkrar.