Mannlíf

Krimmapresturinn í Keflavík
Fritz með nýju bókina, HJÁLP. VF-mynd: Hilmar Bragi.
Laugardagur 16. október 2021 kl. 07:24

Krimmapresturinn í Keflavík

Fritz Jörgenson, prestur í Keflavíkurkirkju, henti fyrstu fimmtíu síðunum sem hann skrifaði í nýjustu glæpasögu sína, HJÁLP, en hún er sjöundi krimminn sem hann skrifar. 

Á fallegum sumardegi finnst lík af nakinni konu í sorpgeymslu við safnaðarheimili Dómkirikjunnar í Reykjavík. Henni hafði verið misþyrmt með hrottafengnum hætti. Brátt vakna grunsemdir um að fleiri konur kunni að vera í hættu. Jónas og félagar hans hjá sérdeild rannsóknarlögreglunnar vinna í kappi við tímann að leysa málið en það teygir anga sína í óvæntar áttir. Úr verður æsispennandi atburðarrás.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

 Sérviska

„Vinnan að bókinni gekk mjög vel, ég reyndar lofa mér alltaf á haustin að nú ætli ég að skrifa jafnt og þétt yfir veturinn, nota einhvern ákveðin tíma á dag í þetta en einhvern veginn hentar það mér ekkert sérlega vel. Þannig að ég skrifa bara þegar ég skrifa en aldrei á ákveðnum tímum. Þegar ég var að skrifa HJÁLP og var búinn með fyrstu 40–50 síðurnar þá ákvað ég að henda öllu og skrifa upp á nýtt, ég hef gert þetta áður og finnst gaman að sjá hvað gerist en finnst þetta virka vel og hafa góð áhrif á framhaldið en líklega er þetta bara einhver sérviska. Svo er þetta þannig að þegar það er eitthvað spennandi að gerast í sögunni þá á ég mjög erfitt að hætta að skrifa því ég verð sjálfur svo spenntur að sjá hvað gerist næst – og þegar ég er farinn að nálgast lokin á skrifunum þá fer ég oftast alveg inn í þetta og hverf meira og minna inn í söguna í smá tíma. Skrifa þá við öll tækifæri og á erfitt með að sinna öðru en bara vinnu og skrifum og svo þegar bók er til, þá er ég yfirleitt búinn að fá alveg nóg en mér finnst samt alltaf jafn gaman og gott að fá nýja bók upp í hendurnar, halda á henni, opna hana og finna þessa einstöku lykt og yfirbragð sem er af nýjum bókum,“ segir Fritz þegar hann er spurður út í spennusöguskrifin.

Veit ekki hvaðan hugmyndir koma

Hann segist ekkert vita hvaðan hugmyndirnar komi en er þó með í kollinum fyrirfram hvað bókin muni snúast um.  

„Ég veit svo nokkurn veginn um hvað sagan fjallar og hef einhverjar hugmyndir um endinn. Hef svona ramma af henni í höfðinu, svo skrifa ég inn í þann ramma og auðvitað verður margt til á þeirri leið, sumt breytist, það verða til nýir karakterar og mér finnst alltaf ótrúlega gaman að kynnast þessu fólki þegar það verður til. Öll nöfn og staðhætti og svoleiðis fæ ég jafnóðum til mín og þarf ekkert að velta slíku fyrir mér en svo er annað sem þarf að skoða og rannsaka því það verður auðvitað að fara rétt með staðreyndir og þess háttar.“

Les sjálfur inn á Storytel

Bókin kom út fyrir skömmu og fór mjög vel af stað, komst inn á metsölulista hjá Eymundsson nánast um leið og hún kom út. Svo er Fritz að undirbúa útgáfuna á Storytel. 

„Ég les hana sjálfur inn og hlakka til að gera það, finnst það ótrúlega skemmtilegt. Planið er að HJÁLP komi á Storytel í byrjun desember. Síðan var ég að fá í hendurnar enska þýðingu á Drottningunni sem kom út í fyrra en hún er væntanlega á leiðinni í eitthvað ferðalag út í heim,“ segir krimmapresturinn í Keflavíkurkikju.