Karlakórinn
Karlakórinn

Mannlíf

Héldu yndisleg jól í Grindavík og gistu þar
Gunnar Már Gunnarsson og fjölskylda hans úr Grindavík biðu ekki boðanna og fluttu sig til Grindavíkur á Þorláksmessu.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 29. desember 2023 kl. 06:07

Héldu yndisleg jól í Grindavík og gistu þar

„Mikilvægt að Grindvíkingar geti flutt sem fyrst aftur til Grindavíkur,“ segir Gunnar Már Gunnarsson.

Gunnar Már Gunnarsson og fjölskylda hans úr Grindavík biðu ekki boðanna og fluttu til Grindavíkur á Þorláksmessu. Fjölskyldan fyllti þrjá bíla af jólaskrauti, gjöfum og aðföngum og hélt jól sem þau munu líklega alltaf minnast með mikilli hlýju.

Það var ekki mikill vafi í huga fjölskyldunnar að halda jólin í Grindavík. „Það var gefið út þann 22. desember, að okkur yrði gert kleift að gista í Grindavík yfir jólin. Sem betur fer vorum við búin að koma okkur vel fyrir hjá Súsönnu dóttur okkar í íbúð hennar að Ásbrú en svo tókum við umræðuna saman fjölskyldan. Það var í raun Tinna dóttir okkar sem var hörðust á þessu, að fara heim og sú ákvörðun var tekin þó við færum ekki fyrr en á Þorláksmessu. Dagur Ingi sonur okkar var búinn að vera hjá sinni kærustu í Reykjavík og við keyrðum á þremur bílum sem voru fullir af alls kyns jóladóti. Við skreyttum, settum jólatréið upp á aðfangadag og áttum yndisleg jól. Ég átti auðvelt með að sofna á Þorláksmessu en Sigga konan mín var ekki alveg róleg en róaðist við að vita af slökkviliðskonunni Kristínu Björgu Ómarsdóttur ská á móti okkur. Ég held að við fjölskyldan munum alltaf muna vel eftir þessum jólum, það var æðislegt að geta haldið þau heima hjá okkur.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fjölskyldan hefur gist allar nætur í Grindavík frá því að það var leyft og Gunnar Már vonar að þetta sé komið til að vera. „Ég hefði viljað að allir Grindvíkingar flytji sem fyrst aftur til Grindavíkur svo lengi sem jörðin verði til friðs því þeim mun meiri tími sem líður þar til fólk fær að flytja, þeim mun meiri líkur eru á því að þau skjóti rótum annars staðar og flytji þá ekki aftur heim. Ég hef ekki trú á að það gjósi undir Grindavík en líklega mun gjósa nálægt þeim stað þar sem gaus síðast við Sundhnjúkagígana. Þess vegna er komin pressa frá Grindvíkingum að varnargarðar verði reistir sem fyrst til að verja Grindavík. Ég trúi ekki að það eigi bara að verja hitaveituna og Bláa lónið. Grindvíkingar verða rólegri ef reistur verður varnargarður norðan við Grindavík til að verja byggðina. Ég hef fulla trú á að ráðist verði í það verkefni um leið og vinnu við hina varnargarðana lýkur. Það er mjög mikilvægt fyrir Grindavík að atvinnulífið komist sem fyrst á fullt og að íbúar geti snúið til síns heima, þá fyrst getur eðlilegt líf hafist á ný hjá þeim Grindvíkingum sem geta og kjósa að snúa aftur til Grindavíkur.“

Gunnar Már er umboðsmaður Sjóvár í Grindavík en þar sem starfsstöð hans á Víkurbrautinni fór illa er óvíst með framhaldið. „Ég hef getað unnið í Keflavík síðan hamfarirnar áttu sér stað en hús Verkalýðsfélags Grindavíkur þar sem ég er með skrifstofu, skemmdist mikið og er óvíst á þessari stundu hvort það verði dæmt ónýtt eða ekki. Mér var vel tekið af útibúi Sjóvá í Reykjanesbæ og mun geta verið þar áfram. Sigga konan míner kennari í grunnskóla Grinda víkur en búið er að gefa út að skólaárið verði klárað í Reykjavík. Hún er í einum af þeim safnskólum sem settir voru upp og ég á ekki von á neinu öðru en skólaárið verið klárað þar. Ef ekki og hægt verður að hefja skólastarf fyrr í Grindavík, verður það bara frábær bónus fyrir okkur. Það þýðir ekkert annað en líta björtum augum til framtíðarinnar,“ sagði Gunnar Már að lokum.