Mannlíf

Fimm uppáhaldsplötur Sigurður Sævarssonar
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 8. maí 2020 kl. 11:26

Fimm uppáhaldsplötur Sigurður Sævarssonar

Hérna koma fimm uppáhaldsplötur, eða réttara sagt fimm plötur sem hafa haft áhrif á mína tónlistarsköpun.
Svo er náttúrlega hellingur af klassískri tónlist sem ég hef miklar mætur á en læt rokkið eiga sviðið hér.

Low eftir David Bowie

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég keypti mér kassettutæki fyrir fermingarpeninginn. Þetta var lítið mónó tæki, líklegast Panasonic. Ég fjárfesti í tveimur kassettum: A New World Record með ELO og svo Low með David Bowie. Ekki það að ég hafi þekkt tónlist Bowie vel en ég kannaðist við myndina á plötuumslaginu. Hún var nefnilega úr bíómyndinni The Man Who Fell to Earth sem Bowie lék aðalhlutverkið í. Mjög skrítin mynd og platan, við fyrstu hlustun, ekki minna skrítin. Mjög framúrstefnulega á þessum tíma en hefur elst vel.

Ambient eftir Brian Eno

Brian Eno stjórnaði upptökum á þremur af plötum David Bowie, þar á meðal Low. Það hefur sjálfsagt verið ástæðan fyrir því að ég keypti mér plötu með Eno. Hann hefur gert margar Ambient-plötur. Þetta er mjög dreymandi tónlist og sérstaklega góð til að slappa af yfir. Eno sagði sjálfur, í gríni, að þetta væri upplögð tónlist til að spila í partíum: „Þeir sem vilja hlusta heyra tónlistina en þeir sem vilja ekki hlusta geta auðveldlega leitt hana hjá sér.“

Dazzle Ships eftir OMD

Talandi um að eldast vel. Þessi plata frá Orchestral Manoeuvres in the Dark hljómar alltaf ný þegar ég set hana á fóninn. Fyrir mér er þetta eitt af meistaraverkum nýbylgjutímans.

Around the World in a Day eftir Prince

Prince var svo skemmtilegur tónlistarmaður.
Hann var eins og svampur, dró í sig allar tónlistastefnur og bjó til eitthvað nýtt og spennandi. Þessi plata er, finnst mér, hans besta. Hún er bókstaflega að springa af ótal skemmtilegum hugmyndum. Þetta meistaraverk fær mig alltaf til að brosa.

Kid A eftir Radiohead

Radiohead er ein af fáum starfandi hljómsveitum sem ég fylgist með. Þeir eru framsæknir en samt aðgengilegir.
Kid A var fyrsta platan sem ég eignaðist með þeim og ég er ekki frá því að hún sé sú besta, enn sem komið er. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með tónsköpun þeirra. Alltaf eitthvað nýtt og ferskt á hverri plötu.