Mannlíf

Fermingarmyndunum stolið í Frakklandi
Sunnudagur 10. mars 2024 kl. 08:17

Fermingarmyndunum stolið í Frakklandi

Gunnrún Theodórsdóttir fermdist 8. apríl 1984 í Útskálakirkju og á því 40 ára fermingarafmæli í ár. Prestur var séra Guðmundur Guðmundsson. Þegar Gunnrún rifjar upp ferminguna þá kemur í ljós að það eru fáar myndir til frá þessum degi. „Mamma og pabbi fóru til Frakklands stuttu eftir ferminguna og það voru einhverjar myndir eftir á filmunni. Myndavélin var tekin með og henni var stolið á veitingahúsi og fannst aldrei aftur. Þannig að myndirnar úr fermingarveislunni okkar frændsystkinanna prýða sennilega fjölskyldumyndaalbúm hjá einhverjum í Frakklandi.“

Hvað kemur fyrst upp í hugann þegar þú rifjar upp ferminguna?

Ætli það sé ekki þessi sérstöku tengsl sem eru á milli einstaklinganna sem fermdust með mér. Við höfum haldið í þá hefð næstum því óslitið að hittast á fimm ára fresti og halda upp á þessi tímamót. Og það eru einhver sérstök tengsl sem við eigum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Af hverju léstu ferma þig?

Sennilega eru nokkrar ástæður fyrir því, fylgja straumnum, gjafirnar höfðu áhrif, en ég vil trúa því að trúin á Guð hafi líka spilað inn í.

Hvernig var fermingarundirbúningurinn, presturinn og kirkjan?

Ef ég man það rétt þá hittum við prestinn í kirkjunni einu sinni í viku allan veturinn og fengum fermingarfræðslu. Séra Guðmundur hafði alveg ágætis tök á þessum hóp sérstaklega ef það er haft í huga að við vorum ekkert alltaf viðráðanleg.

Var haldin veisla og hvað er eftirminnilegast úr henni?

Já, það var haldin sameiginleg veisla fyrir mig og Svein Magna frænda minn heima hjá mér. Það sem er eftirminnilegast úr veisluhöldunum er sá siður okkar fermingarbarnanna í Garðinum, að ganga í hús. Sem fór þannig fram að við hittumst strax um kvöldið allur hópurinn og fórum heim til hvors annars að skoða gjafir og smakka á veitingum.

Eru einhverjar fermingargjafir sem þú manst eftir?

Já, ég fékk armbandsúr og hillur í herbergið mitt frá mömmu og pabba. Ég fékk kasettutæki, krumpujárn, skartgripi og eitthvað fleira bráðnauðsynlegt fyrir ´80 ungling. Minnir að ég hafi fengið 35 þúsund krónur.

Manstu eftir fermingarfötunum eða klippingunni/greiðslunni?

Fermingardressið samanstóð af pilsi og einhverskonar peysu var keypt í Hagkaup, frekar látlaust miðað við tíðarandann, ljóst að lit með svartri rönd hnepptri framan á. Ása frænka setti í mig fyrstu strípurnar og greiddi mér fyrir daginn, krullur, blóm og allt sem tilheyrði.

Ertu að fara í einhverjar fermingarveislur?

Já ég er búin að fá boð í þrjár held ég, þar á meðal hjá Aroni Loga bróðursyni mínum.