Optical studio
Optical studio

Mannlíf

Félagsskapur skiptir miklu máli
Jón Ólafur Jónsson, varaformaður FEBS og Guðrún Eyjólfsdóttir, formaður FEBS
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
laugardaginn 1. október 2022 kl. 07:20

Félagsskapur skiptir miklu máli

– segir Guðrún Eyjólfsdóttir, formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum.

„Við vitum að það er til fólk sem er einmanna og fer lítið út en ef við hjálpumst að við að reyna að fá það til að vera með okkur í góðra vina hópi gætum við gefið þessu fólki glaðan dag,“ segir Guðrún Eyjólfsdóttir, formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum. FEBS er næst stærsta félag eldri borgara á landinu en jafnframt með lægsta árgjaldið en það nemur 2500 krónum á ári. 

Það er mikið í boði fyrir félagsmenn en helstu þættir sem í boði eru vikulega eru félagsvist, bingó, bridge, listasmiðja, gler og postulínsmálun, dans, gönguhópar, leikfimi, sundleikfimi, billiard, boccia og Janusarverkefnið. Þá eru einnig viðburðir klukkan 14:00 á föstudögum þar sem er ýmist sungið eða boðið upp á önnur skemmtiatriði. Einstaka viðburðir eins og tónleika- og leikhúsferðir, dagsferðir um landið, basar og Þorrablót eru vinsæl afþreying yfir árið og eitthvað sem hefur hlotið góðar undirtektir félagsmanna.

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

„Það er mjög gaman að starfa í þessu félagi, ég hef sjálf kynnst fullt af góðu fólki í gegnum þetta. Það er gott fólk í stjórn og allir í nefndunum vinna ómælt starf hjá okkur,“ segir Guðrún og bætir við: „Það er svakalega mikið starf í gangi og þetta er heilmikil vinna. Þetta er allt rosalega duglegt, jákvætt og áhugasamt fólk. Auðvitað væri gaman að fá fleiri inn, sérstaklega fólk sem er mikið eitt heima en það er oft erfitt að ná til þess.“ 

Í samtali blaðamanns við Guðrúnu barst mikilvægi þess að vera í félagsskap til tals. Hún nefnir þá að það geti verið erfitt að ná til þeirra sem eru einangraðir heima og bendir á símavini Rauða Krossins á Íslandi. Þjónustan er hugsuð sem stuðningur fyrir félagslega einangrað fólk eða þá sem eiga erfitt með að komast út úr húsi. Allar upplýsingar um þjónustuna má finna hjá Rauða Krossinum en þess má geta að verkefnið verður kynnt fyrir félögum FEBS á næstunni. „Félagsskapur skiptir miklu máli, hann léttir fólki lífið. Við erum alltaf opin fyrir nýju fólki og við bjóðum alla, 60 ára og eldri, velkomna í félagið. Ósk um inngöngu í félagið sendist á [email protected],“ segir Guðrún að lokum.