Mannlíf

Eldri kynslóðin á fullu í Janusarverkefninu
Guðný Petrína Þórðardóttir, verkefnastjóri Janusarverkefnisins í Grindavík.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 21. janúar 2023 kl. 06:34

Eldri kynslóðin á fullu í Janusarverkefninu

Líkamsrækt sérsniðin að eldra fólki

„Janusarverkefnið nær inn á alla þætti heilsunnar; líkamlega, andlega og félagslega,“ segir Guðný Petrína Þórðardóttir, verkefnastjóri í Grindavík.

Grindvískir eldri borgarar hafa verið duglegir að iðka líkamsrækt síðan 2020 en þá mætti Janusarverkefnið svokallaða í bæinn. Verkefnið er hugarsmíð Janusar Guðlaugssonar, byggt á doktorsverkefni hans frá árinu 2014. Janus gat sér gott orð sem knattspyrnu- og handknattleiksmaður á sínum tíma, er uppalinn FH-ingur, lék sem atvinnumaður í Þýskalandi og Sviss og á fjölda landsleikja að baki. Janus þjálfaði einnig í fótbolta en eftir doktorsnámið setti hann þetta verkefni, Janusarverkefnið, á laggirnar í Reykjanesbæ árið 2017. Verkefnið er sérhæft fyrir heilsueflingu 65 ára og eldri.

Guðný Petrína Þórðardóttir er verkefnastjóri í Grindavík. „Janusarverkefnið hófst árið 2017 og var innleitt í Grindavík í samvinnu við Grindavíkurbæ árið 2020. Það snýst um að ná inn á alla þætti heilsunnar, líkamlega, andlega og félagslega og er stílað fyrir fólk sem er 65 ára og eldri. Þó höfum við á sumum stöðum lækkað aldurinn niður í 60 ára en þar sem sveitarfélögin koma að verkefninu þá miðum við við 65 ára aldur. Þessi aldurshópur hefur kannski ekki verið mikið að huga að líkams- og heilsurækt en vissulega er inn á milli fólk sem hefur verið að æfa og heldur áfram hjá okkur. Mest eru þetta samt aðilar sem hafa aldrei stundað markvissa heilsurækt og finna fljótt styrkinn í hópeflinu, að hittast og æfa saman. Þannig ná þau að efla heilsu sína í þessum þremur þáttum sem ég minntist á. Hér inni í líkams- og heilsuræktarstöðinni erum við mest að með styrk, förum einnig í þolæfingar í Hópinu en svo gerum við ýmislegt annað, förum í pílukast, ég kenni þeim jóga svo einhver dæmi séu tekin. Við erum einnig með reglubundin fræðsluerindi varðandi næringu og aðra heilsutengda þætti.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eldri kynslóðin í Grindavík tekur vel á því í Janusarverkefninu.


Pálínuboð

Það er ekki síst félagslegi þátturinn sem Janusarverkefnið snýst um. „Við höfum verið dugleg að hitta iðkendur í öðrum sveitafélögum og framundan er Pálínuboð í Kvikunni en þá bjóðum við fólkinu í Reykjanesbæ til okkar. Í Pálínuboði þá koma allir með eitthvað til að setja á veisluborðið. Þau buðu okkur til sín í nóvember, þá fórum við með þeim í kirkjuna og fengum að kynnast starfinu þar og sungum með þeim jólalög, mjög vel lukkuð ferð og við munum gera meira af þessu í framtíðinni,“ segir Guðný.

Sveitarfélögin sem hafa stokkið á Janusarvagninn gera samning sem í felst niðurgreiðsla fyrir þátttakendur. „Núverandi samningur rennur út í mars en Grindavíkurbær hefur ákveðið að endurnýja hann. Það verða ekki miklar breytingar á skipulaginu, við munum reyna víkka samninginn út og ná til fleiri aðila, m.a. þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimilinu í Grindavík. Það er öðruvísi hópur í Víðihlíð, fólk kannski ekki með eins góða heilsu og þarf sérhæfðari aðstoð en við sem erum að þjálfa erum fullhæf til að takast á við það.“

Þrepaskipt áætlun þar sem unnið í sex mánuði í senn

Þeim fjölgar alltaf sveitarfélögunum sem sjá sér hag í Janusarverkefninu og allir fylgja sömu áætlun. „Við erum komin víðsvegar um landið og þátttakendum fjölgar stöðugt. Janus stýrir verkefninu í samvinnu við Báru Ólafsdóttur íþrótta- og heilsufræðing en það er í raun þrepaskipt, hver hópur vinnur í sex mánuði þannig að þegar nýr aðili byrjar þá er hann í fyrsta þrepi. Eftir sex mánuði færist hann upp í annað þrep og þannig gengur þetta fyrir sig í tvö ár.

Stundum koma inn aðilar sem eiga í erfiðleikum með ákveðnar æfingar og þá þarf að aðlaga æfingarnar. Eftir sex mánuði er viðkomandi aðili nánast undantekningarlaust búinn að taka framförum og getur færst yfir í næsta þrep.“

Guðný hvetur alla til að koma að prófa. „Því miður heyrum við of oft af fólki sem einangrast þegar það kemst á eftirlaunaaldurinn. Með því að gera ekki neitt þá er sú hætta alltaf fyrir hendi. Því hvetjum við alla sem eru forvitnir, að líta við hjá okkur en við verðum með kynningarfund í mars. Við tökum nýja aðila inn tvisvar sinnum á ári og bjóðum áhugasömum alltaf að prófa í nokkur skipti áður en ákvörðun er tekin. Með því að taka þátt þá er fólk að huga mjög vel að heilsu sinni, enn og aftur að þessum þremur þáttum sem eru allir mikilvægir en einnig að hægja á öldrunarferlum eins og hægfara vöðvarýrnun og minnkandi hreyfigetu. Þessu má öllu snúa til betri vegar með markvissri þjálfun. Það vita allir hversu hollt er að stunda líkams- og heilsurækt og að rækta andann er ekki síður mikilvægt. Svo er það félagslegi þátturinn sem er svo mikilvægur. Fólkið sem byrjar hjá okkur er í skýjunum og fer nánast skælbrosandi heim að lokinni æfingu,“ sagði Guðný að lokum.