RNB 17 júní
RNB 17 júní

Mannlíf

Dúxinn dansar og vill verða grunnskólakennari
María Tinna Hauksdóttir, dúx frá FS á vorönn 2021. VF-mynd/Oddgeir Karlsson.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 29. maí 2021 kl. 07:12

Dúxinn dansar og vill verða grunnskólakennari

María Tinna Hauksdóttir er dúxinn á vorönn í Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

„Ég verð að segja að ég hef alltaf verið góður námsmaður. Ég er hálfgerður fullkomnunarsinni. Ég er mjög skipulögð og legg 100% metnað í allt sem ég tek mér fyrir hendur,“ segir María Tinna Hauksdóttir, dúx frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja á vorönn 2021. María var í góðum hópi góðra nemenda en tíu þeirra voru með meðaleinkunn yfir níu á vorönn.

– Hvað er svo eftirminnilegast eftir námið í FS, námslega séð og félagslega séð?

„Það sem mér finnst eftirminnilegast úr FS námlega séð voru skemmtilegir kennarar, fjölbreytt og krefjandi nám þar sem ég gat valið úr mörgum mismunandi áföngum og raðað niður á annir eftir mínum þörfum. Félagslega séð þá standa böllin og skemmtikvöldin upp úr. Því miður var minna um félagslíf eftir að covid byrjaði.“

– Hvernig var að útskrifast á tímum Covid-19?

„Covid-19 breytti heilmiklu í hvernig náminu var háttað. Námið fór meira fram í fjarnámi og gekk það mjög vel þar sem ég er frekar skipulögð. Það var leiðinlegt að geta ekki mætt í skólann því fjarnámið tók í burtu öll bein samskipti, sérstaklega við kennarana. Útskriftardagurinn var mjög skemmtilegur þó það hefði verið skemmtilegra að foreldrarnir fengju að vera viðstaddir.“

– Áttirðu von á því að verða dúx?

„Ég vissi að ég væri með góðar einkunnir, en ég vissi ekki stöðu annarra nemenda þannig ég gat ekki gert ráð fyrir því. En þetta var mjög skemmtilegur endir á útskriftarathöfninni.“ 

– Einhver uppáhaldsfög?

„Já, auðvitað eru alltaf einhver fög sem standa upp úr og verð ég að nefna félagsfræði og spænsku sem ein af mínum uppáhaldsfögum. Ég hafði samt sem áður mjög gaman af mörgum öðrum fögum.“

– Framtíðaráform, draumastarf?

„Planið núnar er að fara í Háskóla Íslands í haust og læra grunnskólakennarann. Ég hlakka mikið til að takast á við þær áskoranir sem það mun veita mér. Einnig langar mig að sinna danskennslu í framtíðinni.“

– En sumarið, hvernig verður það?

„Ég er að vinna á leikskóla í sumar og svo eru strangar æfingar hjá mér í samkvæmisdansinum og gera mig tilbúna fyrir keppnir haustsins. Stefnan er sett á að komast erlendis í ágúst til að keppa í einni stærstu keppni í heimi. Öruggt er að það verður nóg hjá mér að gera næsta vetur.“

– Þú hefur verið dugleg í dansi?

„Já, ég hef verið í keppnisdansi síðan ég var ung. Ég er í A-landsliði Íslands og hef verið það í sex ár. Ég er margfaldur Íslandsmeistari og bikarmeistari í mínum aldursflokkum og ég sérhæfi mig í „ballroom“-dönsum. Ég ferðast mjög mikið og keppi erlendis fyrir hönd Íslands.

Af árangri mínum erlendis má helst nefna þriðja sæti á heimsmeistaramóti, þrefaldur Norðurlandameistari, úrslit á Evrópumeistaramóti ásamt því að vera í sjöunda sæti á einni stærstu og virtustu keppni í heimi: The British Open í Blackpool í U21 ballroom. Einnig fékk ég og herrann minn, Gylfi Már, þann heiður að komast á meðal 44 bestu dansara í heimi í flokki fullorðinna á The International Championships og fengum því að keppa á lokakvöldinu í The Royal Albert hall. Núna í Covid höfum við ekkert gefið eftir og verið í Zoom-kennslu og æfingum til að vera tilbúin þegar allt opnast á ný,“ segir dansarinn og dúxinn María Tinna.