Reykjanes Optikk afmælistilboð
Reykjanes Optikk afmælistilboð

Íþróttir

Stefnir á atvinnumennsku og Íslandsmeistaratitil karla
Logi Sigurðsson átti góðu gengi að fagna á golfvellinum í sumar. Myndir af Facebook-síðu Loga
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 23. september 2022 kl. 08:52

Stefnir á atvinnumennsku og Íslandsmeistaratitil karla

„Þetta er búið að vera mjög gott sumar, það er ekki hægt að ljúga því,“ segir Logi Sigurðsson, afreks-kylfingur úr Golfklúbbi Suðurnesja, en hann varð tvöfaldur Íslandsmeistari í golfi í sumar og stigameistari GSÍ í flokki 19–21 árs. Logi stóð uppi sem sigurvegari á Íslandsmóti unglinga í höggleik í flokki 19–21 árs og þá varð hann einnig Íslandsmeistari 19–21 árs með sameiginlegri sveit unglinga GS og Odds ásamt Sveini Andra Sigurpálssyni og Fjólu Margréti Viðarsdóttur úr GS og Axel Óla Sigurjónssyni úr Oddi.

Sumarið var á pari

Aðspurður segir Logi að tímabilið hafi staðið undir þeim væntingum sem hann hafði. „Þetta gekk eiginlega upp eins og ég sá sumarið fyrir mér. Auðvitað vildi ég taka allt í unglingaflokkum en þetta var eiginlega bara á pari,“ segir Logi sem á ekki langt að sækja golfhæfileikana en pabbi hans, Sigurður Sigurðsson, varð Íslandsmeistari karla árið 1988.

„Svo endaði ég í þriðja sæti í Íslandsmótinu í holukeppni en ég var ekkert sérstakur í því móti þótt ég hafi náð að koma mér í undanúrslit. Þar rétt tapaði ég en vann örugglega leikinn um þriðja sætið.“

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk

Svo varðst þú klúbbmeistari GS er það ekki?

„Nei, ég varð í þriðja sæti í meistaramótinu. Guðmundur Rúnar [Hallgrímsson] varð klúbbmeistari – takk fyrir að minna mig á það,“ segir hann og hlær. „Ég og Róbert Smári Jónsson urðum jafnir í því þriðja en Pétur Þór Jaidee varð annar.

Íslandsmeistaratitilinn í höggleik er að sjálfsögðu eftirminnilegasti titillinn á árinu,“ segir Logi. „En líka að vinna sveitakeppnina með sameiginlega liðinu því við vorum talin ólíkleg til afreka fyrir það mót. Í raun eru allir sigrarnir á unglingamótaröðinni eftirminnilegir og ég vil þakka Sigga Palla, þjálfaranum mínum, og Guðmundi Rúnari og Fjólu, liðsfélögum mínum, fyrir alla aðstoðina í sumar.“

Sigursveit GS og Odds í sveitakeppni unglinga 2022. Frá vinstri: Sveinn Andri Sigurpálsson, Fjóla Margrét Viðarsdóttir, Logi Sigurðsson, Axel Óli Sigurjónsson og Sigurpáll Geir Sveinsson, þjálfari liðsins. Á innfelldu myndinni er nýbakaður Íslandsmeistari í höggleik 2022 í flokki unglinga 19–21 árs.


Logi var duglegur við þátttöku í mótum í sumar og tók þátt í öllum nema einu móti á mótaröðinni. „Það var eitthvað sem ég varð að gera, mig vantar aðeins meira öryggi þar – aðeins að bæta keppnisreynsluna en það er allt er á réttri leið og verður komið á næsta ári.“

Þú ert nú af miklum golfættum og hefur kannski alltaf verið viðloðandi golfið en hvenær fórstu að helga þig golfíþróttinni af fullum krafti?

„Eins og þú segir þá hef ég alltaf verið í golfi en ég fór að mæta á skipulagðar æfingar og spila í mótum árið 2017. Ég var að æfa fótbolta fyrir það en fór svo að eiga í meiðslum og skipti þá alfarið yfir í golfið. Árið 2018 fékk ég svo alvöru þjálfara og þá var ekki aftur snúið og ég hætti alveg fótboltanum – en ég er grjótharður Njarðvíkingur og þetta ár er búið að vera ein stór skemmtun fyrir okkur Njarðvíkinga,“ segir Logi og bætir við að toppurinn hafi verið að slá Keflavík út úr Mjólkurbikarnum. „Það var falleg stund.“

Hver er stefnan hjá þér?

„Í golfi er stefnan að verða betri með hverjum deginum, betri í dag en í gær. Svo er það að sjálfsögðu markmið að komast í atvinnumennskuna, það verður mögulega gerð tilraun til þess á næsta eða þarnæsta ári. Þá langar mig að byrja að reyna fyrir mér úti.“

Ertu eitthvað byrjaður að leggja drögin að því hvert þú farir?

„Ég er byrjaður að skoða hvaða mót ég get farið á, skoða úrtökumót fyrir Evróputúrinn og svona. Svo er ég svo heppinn að starfa fyrir GolfSögu sem skipuleggur golfferðir í samstarfi við Heimsferðir, þannig að ég hef tækifæri til að æfa á Costa Ballena fyrir svona mót. Ef ég væri að keppa úti myndi ég æfa mig þar en annars undirbý ég mig og æfi hér heima. Aðstaðan orðin svo góð hjá okkur í GS að þar er hægt að æfa allt árið um kring, við höfum tvo golfherma í nýrri inniaðstöðu klúbbsins sem er í gömlu slökkvistöðinni við Hringbraut.“

Með fjölskyldunni í golfi. Sigurður, pabbi Loga, Adam, bróðir Loga, Logi og Sesselja, stjúpmóðir hans (mynd til vinstri). Logi spilaði fótbolta með Njarðvík áður en hann valdi golfboltann framyfir fótboltann (innfelld mynd). Logi bendir á pabba sinn vera að pútta á Bergvíkinni í Leiru, einni þekktustu golfholu landsins (mynd til hægri).


Vill slá þeim gamla við

Það má segja að flest snúist um golf hjá Loga en hann hætti í framhaldsskóla í miðju Covid og er núna byrjaður í PGA-golfkennaranámi.

„Ég byrjaði í náminu bara um síðustu helgi en er búinn að vera að þjálfa krakka síðustu þrjú ár. Hef verið að aðstoða Sigga Palla [Sigurpál Geir Sveinsson, íþróttastjóra GS] við æfingar og frá síðasta hausti hef ég verið að kenna úti á Costa Ballena,“ segir Logi sem er tvítugur að aldri.

Það hlýtur nú að vera markmið hjá þér að slá þeim gamla við?

„Já, það er markmið sem mig dreymir um. Að þagga niður í honum, svona einu sinni til tilbreytingar – í eitt skipti fyrir öll.“ Logi hlær að þessari athugasemd og segir það vera draumamarkmið að landa Íslandsmeistaratitli karla eins og pabbi hans gerði á sínum tíma. „Og ef ég kemst í atvinnumennsku þá er ég búinn að skilja hann eftir í rykinu,“ bætir hann svo við. „Ég er búinn að ná einum titli sem hann náði aldrei, Íslandsmeistara unglinga, en mig langar að verða Íslandsmeistari karla – það er stóra markmiðið.“