Rúmfatalagerinn
Rúmfatalagerinn

Íþróttir

Ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt en hrikalega erfitt
Birna Valgerður í leik með Keflavík. VF-mynd/JPK.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
þriðjudaginn 28. febrúar 2023 kl. 07:07

Ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt en hrikalega erfitt

„Ég óx mjög mikið sem leikmaður og manneskja á þessum þremur árum sem ég var úti,“ segir Birna Valgerður Benónýsdóttir, leikmaður meistaraflokks kvenna hjá Keflavík, sem var orðin spennt að hefja keppni á ný þegar Víkurfréttir heyrðu í henni nú um helgina en Subway-deild kvenna í körfuknattleik fór þá aftur af stað eftir landsleikjahlé.

Það var talsvert gagnrýnt að Birna hafi ekki verið valin í landsliðshópinn að þessu sinni en hún hefur átt flott tímabil og er næststigahæst af íslensku leikmönnum deildarinnar. Reyndar kom svo í ljós að Birna hafði ekki gefið kost á sér í liðið, það lá því beinast við að spyrja hana: Af hverju hverju gafstu ekki kost á þér?

„Ég fékk skilaboð frá Körfuknattleiksambandinu um að ég væri ekki í tólf manna hópi, væri sú þrett-ánda eða fjórtánda – þannig að ég þakkaði bara gott boð en sagðist ekki gefa kost á mér í þetta skipti.“

Birnu finnst tímabilið hafa gengið vel þótt vissulega hafi þær átt nokkra upp og niður leiki. „Það er búið að vera ótrúlega gaman hjá okkur og vonandi náum við að halda því áfram. Andinn í hópnum er mjög góður og við erum allar góðar vinkonur, það skiptir mjög miklu máli þegar verið er að spila svona langt tímabil – að það sé góður andi og að við náum allar vel saman. Ekki bara inn á vellinum heldur líka utan hans.“

Hvað finnst þér um þína frammistöðu í vetur?

„Jú, heilt yfir er ég mjög ánægð að vera komin heim og að spila heima. Það tók smá stund að detta inn í þetta, finna taktinn, en mér finnst það alveg vera að koma. Ég er búin að eiga nokkra lélega leiki undanfarið en maður getur ekki alltaf spilað fullkomna leiki. Ég reyni bara að einbeita mér að næsta verkefni.“

Þú hefur nú bætt tölfræðina töluvert frá því að þú lékst hérna heima síðast [var með 9,4 stig að meðaltali í leik og 3,4 fráköst árið 2019 en er nú með 15,1 stig og 4,1 fráköst].

„Já, ég er náttúrlega orðin aðeins eldri og kannski reyndari í þessum leik,“ segir Birna og hlær.

Hrikalega erfitt

Við vindum nú okkar kvæði í kross og spyrjum Birnu hvernig henni hafi fundist að fara út í nám.

„Það var hrikalega erfitt en ótrúlega skemmtilegt og lærdómsríkt,“ segir hún. „Ég óx mjög mikið sem leikmaður og manneskja á þessum þremur árum sem ég var úti. Ég sé eiginlega ekki eftir neinu.“

Birna fór fyrst til Arizona en skipti yfir til Binghamton í New York-fylki. „Það var mjög stórt stökk að flytja héðan og til Arizona, í raun mun stærra stökk en ég gerði ráð fyrir – en ég fílaði mig töluvert betur í Binghamton.

Í Arizona var rosalegt prógram og ég lærði ótrúlega margt á þessu ári þar. Ég spilaði ekki mikið fyrsta árið, eiginlega ekkert fyrr en undir lok tímabilsins, en þvílík reynsla sem ég öðlaðist á að vera í þessu liði. Ótrúlega gaman að vera að æfa með þessum stelpum, tvær þeirra eru einmitt komnar í WNBA [bandarísku atvinnumannadeild kvenna]. Eins erfitt og það ár var þá sé ég það eftir á hvað ég lærði mikið – hvað þetta var gefandi og skemmtilegt þrátt fyrir allar erfiðu stundirnar.“

Birna segir að það hafi verið mikil viðbrigði að flytja héðan og þurfa að standa á eigin fótum í fjarlægu landi og ólíkri menningu. „Það var erfitt að fara úr öllu örygginu hér og stinga sér beint í djúpu laugina, þurfa að venjast öllu upp á nýtt og vera í fullu prógrammi alla daga, engar pásur.“

Varstu alein? Voru engir aðrir Íslendingar þarna?

„Já, í rauninni. Ég bjó með tveimur stelpum sem voru í svipuðum sporum og ég, önnur var frá Ástralíu og hin Lettlandi. Við vorum allar þrjár í þessum sama pakka, allar á fyrsta ári og í burtu frá fjölskyldum okkar í fyrsta skipti. Við vorum svolítið að finna út úr þessu í sameiningu og það gekk svona misvel.

Áður en ég fór út var maður búinn að heyra af krökkum sem vildu bara koma heim aftur eftir eitt ár og ég hugsaði: „Er þetta virkilega svona erfitt?“ Já, þetta er virkilega svona erfitt – en eins og ég sagði, mjög gefandi.“

Birna ákvað að prófa að skipta um skóla eftir fyrsta árið og flutti sig í Binghamton-háskólann í New York-fylki. Í Arizona var hún fyrst í almennu námi en byrjaði svo í sálfræði. Í Binghamton fór hún að læra Human Development. „Sem er nokkurs konar blanda af sálfræði og félagsfræði,“ segir hún. „Ég kláraði námið ekki áður en ég kom heim. Af því að ég skipti um skóla þá fékk ég ekki allt metið og ég hefði þurft að vera í tvö skólaár í viðbót til að fá gráðuna. Ég var ekki tilbúin í það, að vera í tvö ár til viðbótar úti. Þar að auki var ég ekki viss um að þetta væri það sem ég vildi læra, þannig að núna er ég að taka mér smá pásu frá skóla á meðan ég geri upp við mig hvað mig langi að læra.“

Birna vinnur sem stuðningsfulltrúi í Holtaskóla í bekk á yngsta stigi þar sem hún aðstoðar tvo einhverfa stráka. „Við erum tvær sem skiptum með okkur tveimur einhverfum strákum sem við fylgjum í gegnum daginn. Það eins og allt annað, svolítið upp og niður dagar en mjög skemmtilegt og gefandi starf – og mjög skemmtilegir krakkar sem ég er að vinna með.“

Upplifanir í gegnum íþróttir

Birna hefur fengið tækifæri til að prófa ýmislegt í gegnum sína körfuboltaiðkun. Bara það að fara eins og hún gerði í háskólanám til Bandaríkjanna hefði varla staðið til boða nema vegna körfuboltans. „Og við unnum mikið með það þarna úti. Það var gríðarlega mikið lagt upp úr því hvað við værum í rauninni heppnar að vera í þessum sporum, að fá frítt háskólanám og alla þá aðstoð sem við vorum að fá. Við værum í rauninni að fá allt upp í hendurnar og ég er ótrúlega þakklát fyrir þessi þrjú ár sem ég fékk þarna úti – ég næ ekki einu sinni að koma því í orð. Ef krakkar eru eitthvað að pæla í þessu, að fara í nám erlendis, þá mæli ég eindregið með því. Eins og ég segi, það er ekkert mál að koma heim ef þetta er ekki fyrir þig. Ef þú kemst ekki í gegnum árið, þá geturðu alltaf farið heim aftur.

Ég sé ekki eftir því að hafa prófað þetta. Manni er hent út í djúpu laugina en maður kann að synda, svo þetta kemur allt á endanum.“

Aðspurð hvort það sé líf fyrir utan körfuboltann segir Birna: 

„Þegar tímabilið er í gangi er ekkert rosalega mikill tími aflögu – en mér finnst ofsalega gaman að hitta vinkonur mínar þegar ég hef tíma. Ég brunaði t.d. í bæinn í gær og fór í bíó með vinkonum mínum. Ég er mikil félagsvera og finnst rosalega gaman að vera með vinum mínum – og þegar ég get þá finnst mér mjög skemmtilegt að ferðast. Ég hef ferðast mikið með landsliðinu í gegnum tíðina og finnst það mjög gaman. Ég notaði líka landsleikjahléið og skrapp til New York um daginn til að heimsækja vini mína, sem er svona sambland af báðu, að ferðast og hitta vini. Það var yndisleg helgarferð.

Samt er ég mjög mikil rútínumanneskja. Mér finnst mjög gott að fara í vinnuna, koma heim, fá mér að borða áður en ég fer á æfingu. Körfuboltinn hefur alltaf verið númer eitt, tvö og þrjú hjá mér, ég er búin að vera í körfunni frá því að ég var fimm ára gömul. Núna þegar ég er ekki í skóla hef ég aðeins meiri tíma fyrir sjálfa mig og er að reyna að finna út úr því sjálf, hvað fleira er í boði fyrir utan körfuboltann.“

Einbeitum okkur að okkur

Að lokum, hverju spáir þú um deildina? Ætlið þið ekki að klára þetta, deildarmeistarar og Íslandsmeistarar?

„Bara nó komment! Við erum mjög mikið bara að einbeita okkur að okkur,“ segir Birna. „Hössi [Hörður Axel Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur] er búinn að vera að berja það í okkur að horfa ekki of langt fram á við, það sem gerist gerist. Eins lengi og við erum að gera okkar besta er ekkert meira sem við getum gert,“ sagði Birna Valgerður að lokum.

Birna er elst þriggja systkina, hér er hún með þeim Finnboga Páli og Hrönn Herborgu.

Birna hefur fengið fjölmörg tækifæri til að skoða heiminn með landsliðum Íslands.

Á góðri stundu með vinkonum.