Íþróttir

Keflvíkingar sáu aldrei til sólar
Valur sýndi mikla yfirburði á HS orkuvellinum í gær. VF-myndir: JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
miðvikudaginn 10. ágúst 2022 kl. 10:13

Keflvíkingar sáu aldrei til sólar

Keflavík tók á móti toppliði Vals í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í gær. Heimakonur voru yfirspilaðar af sterku liði Vals sem réði lögum og lofum á vellinum og höfðu að lokum fimm marka sigur.

Gestirnir hófu leikinn af krafti en þær léku með sterkan vindinn í bakið og það var ákafi í leik Valsara sem sóttu stíft að marki Keflavíkur. Á 14. mínútu kom fyrsta markið en fram að því hafði Keflavík náð að stöðva sóknir gestanna. Markið kom úr hornspyrnu þar sem boltinn var sendur fyrir markið, enginn náði til boltans en Snædís María Jörundsdóttir varð fyrir því óláni að fá hann í sig og af henni hrökk hann í mark Keflavíkur.

Við það að brjóta ísinn og komast í forystu varð leikur gestanna afslappaðri en Valskonur höfðu sýnt mikla grimmd og mikinn vilja til að skora frá byrjun leiks. Keflavík náði þó ekki að rífa sig upp úr því andleysi sem virtist hrjá liðið og áfram hafði Valur algera yfirburði á vellinum. Tíu mínútum eftir fyrsta markið tvöfaldaði Valur forystuna, þá með skoti utan teigs sem Samantha Murphy, markvörður Keflavíkur, náði ekki til (24').

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Annað mark Vals í leiknum, boltinn út við stöng og Samantha Murphy kom engum vörnum við.

Staðan var því 0:2 í hálfleik og sá sem þetta skrifar vonaðist til að rætast myndi úr leik Keflavíkur í þeim seinni en þá léku gestirnir með sterkan vindinn í fangið – það gerðist hins vegar ekki. Áfram hélt stórsókn Vals og heimakonur náðu ekki að hrista af sér doðann. Á 63. mínútu var landsliðskonunni Elínu Metta Jenssen skipt inn á í liði Vals og hún var ekki lengi að stimpla sig inn í leikinn. Murphy tók útspark sem enginn Keflvíkingur gerði sig líklegan til að vinna. Boltinn var skallaður beinustu leið til baka, inn fyrir vörn Keflavíkur þar sem Elín Metta var ein á auðum sjó og vippaði laglega yfir Murphy í markinu (64').

Skömmu síðar skoruðu Valskonur fjórða mark sitt þegar þær sóttu upp vinstri kantinn. Murphy tók þá áhættu og reyndi að stela metrum áður en fyrirgjöfin kæmi en var gripin í landhelgi, sóknarmaður Vals lét bara vaða á markið úr þröngu færi og þótt Murphy kastaði sér á eftir boltanum náði hún ekki til hans (69'). Bæði mörkin í seinni hálfleik frekar í ódýrari kantinum.

Fyrirliðinn Kristrún Ýr Holm hafði í nógu að snúast í vörninni enda fór leikurinn að mestu fram á vallarhelmingi Keflvíkinga.

Síðasta markið skoruðu Valskonur eftir hornspyrnu á 84. mínútu. Hornspyrnan var ekki góð en boltinn lak í gegnum pakkann fyrir framan mark Keflvíkinga sem náðu ekki að hreinsa frá og á endanum rak sóknarmaður Vals boltann í netið af stuttu færi – fimm marka tap á heimavelli því staðreynd.

Það verður að segjast að gæðamunur á liðinum er mikill en það segir ekki alla söguna, Keflvíkingar náðu aldrei að komast í takt við leikinn og þær virtust hreinlega ekki ná að gíra sig upp í að taka almennilega á sterku liði Vals.

Keflavík er nú með tíu stig í sjöunda sæti Bestu deildarinnar, jafnt Þór/KA að stigum sem er í áttunda sæti, en Keflvíkingar eru nú aðeins einu stigi frá Aftureldingu sem er í næstneðsta sæti deildarinnar eftir tólf umferðir.


Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á vellinum og tók meðfylgjandi myndir.

Keflavík - Valur (0:5) | Besta deild kvenna 9. ágúst 2022