Aðsent

Viðspyrna íslensks efnahagslífs felst ekki í að ríkisvæða íslenska ferðaþjónustu
Fimmtudagur 11. mars 2021 kl. 12:16

Viðspyrna íslensks efnahagslífs felst ekki í að ríkisvæða íslenska ferðaþjónustu

Í síðustu viku birtist aðsend grein í Víkurfréttum frá Andrési Inga Jónssyni, þingmanni Pírata, undir heitinu „Þrjár flugur með einum vagni“. Í greininni kom fram að til skoðunar væri hjá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að styðja við rekstur Flugrútunnar. Eins og fram kom í fréttum þann 27. febrúar hófu Kynnisferðir akstur Flugrútunnar að nýju eftir sex vikna hlé. Það kom einnig fram í fréttum að Kynnisferðir þiggja engan styrk frá ríkinu vegna reksturs hennar.

Í grein Andrésar kemur fram að Kynnisferðir hafi þegið yfir 200 milljónir króna úr ríkissjóði til að segja upp starfsfólki en rétt er að árétta að samtals hafa 272 fyrirtæki þegið uppsagnarstyrki og yfir átta milljarðar króna verið greiddar út og því hlutur Kynnisferða lítill í því samhengi þó að vissulega hafi aðgerðir stjórnvalda hjálpað fyrirtækinu að standa við skuldbindingar við starfsmenn í því fordæmalausa ástandi sem við erum í.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þingmaður bendir í grein sinni á betri leið sem gengur út á að ríkið styrki enn frekar við rekstur Strætó en nú þegar renna á fjórða milljarð króna úr ríkissjóði til almenningssamgangna. Hlutverk almenningssamgangna er að þjónusta íbúa landsins til að komast á milli staða og samkvæmt lögum um farþegaflutninga getur Vegagerðin veitt sveitarfélögum einkarétt á að skipuleggja farþegaflutninga á tilteknum svæðum. Einungis má veita einkarétt ef ekki er hægt að reka þjónustuna á viðskiptagrundvelli og skal tryggja að samkeppni fái að njóta sín. Samkvæmt þessum lögum er því stjórnvöldum óheimilt að starfrækja almenningssamgöngur í samkeppni við Flugrútuna og önnur þau fyrirtæki sem bjóða þjónustu sína á þessari leið. Það vekur því mikla undrun að Andrés leggi til að stjórnvöld greiði enn meira til almenningssamgangna en nú þegar er gert til að fjölga ferðum á leið 55 og þannig ríkisvæða rekstur sem samkeppni ríkir um. Ég er nokkuð viss um að Samkeppniseftirlitið mundi einnig gera alvarlegar athugasemdir við slíkt framferði stjórnvalda. Einnig má benda á að Kynnisferðir greiða virðisaukaskatt til ríkisins af rekstri Flugrútunnar auk þess að greiða verulegar fjárhæðir til ríkisfyrirtækisins Isavia á ári hverju. Leið 55 greiðir hvorki virðisaukaskatt né þóknun til Isavia.

Í þeim sóttvarnarreglum sem gilt hafa undanfarna mánuði er fólki í sóttkví óheimilt að nýta sér almenningssamgöngur og því væri það einnig brot á sóttvarnarreglum að beina komufarþegum inn í almenningssamgöngur þar sem fólk í sóttkví mundi blandast almenningi með hættu á útbreiðslu veirunnar.

Við hjá Kynnisferðum höfum lagt metnað okkar í að endurnýja rútuflota okkar mjög reglulega og er floti okkar mun nýrri og umhverfisvænni en þeir bílar sem sinnt hafa almenningssamgöngum á Suðurnesjum á síðustu árum. Einnig má benda á að Kynnisferðir hafa veitt mörgum íbúum Suðurnesja atvinnu á síðustu árum og vonandi getum við fljótlega farið aftur að fjölga í þeim hópi. Vissulega mætti þjónusta íbúa Suðurnesja með betri almenningssamgöngum enda hefur orðið mikil fækkun farþega á þessum leiðum, en lausnin felst ekki í því að nota Covid-ástandið til að knésetja ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur byggt upp þjónustu við Keflavíkurflugvöll á síðustu 40 árum. Viðspyrna íslensks efnahagslífs felst ekki í að ríkisvæða íslenska ferðaþjónustu.

Reykjavík, 8. mars 2021

Björn Ragnarsson,
framkvæmdastjóri Kynnisferða.