Flugger
Flugger

Aðsent

Við áramót 2022-2023
Miðvikudagur 4. janúar 2023 kl. 08:57

Við áramót 2022-2023

Við áramót er gjarnan litið um öxl, rifjað upp hvað bar hæst í tilverunni á liðnu ári og horft fram á veg með væntingar til komandi árs.  Áramótin eru því alltaf sérstakur tími þar sem nýir tímar kveðja fortíðina.

Eins og venjulega er margs að minnast frá liðnu ári og alltaf eru ýmis tíðindi og minningabrot  eftirminnilegri en önnur. Í upphafi ársins var Covid-19 faraldurinn ennþá í fullum gangi, eftir að hafa gosið upp í byrjun árs 2020.  En þegar leið á árið fengum við aftur frelsið eftir tveggja ára frelsis- og samkomutakmarkanir með tilheyrandi smitvörnum, það var kærkomið fyrir okkur öll.  Daglegt líf okkar færðist aftur í fyrra horf -  að mestu. Hins vegar má segja að afleiðingar faraldursins lifi áfram að einhverju leyti, en við lærðum margt á covid tímanum og að ýmsu leyti hefur gildismat okkar tekið breytingum.  Meðal þess sem við lærðum og erum reynslunni ríkari er hagnýting tækninnar, þar sem margir þurftu um lengri og skemmri tíma að vinna sín störf heima vegna lokunar vinnustaða.  Við lærðum m.a. að hagnýta fjarfundatækni sem sýnir okkur fram á að við getum m.a. sparað ferðalög vegna fundahalda og tekið þátt í fundum um netið.  Þá má einnig segja að dýrmæt reynsla hafi fengist við að virkja viðbragðs-og aðgerðaáætlanir í þágu almennings, sem hefur nýst vegna atburða sem orðið hafa í kjölfar covid faraldursins.  Loks má ekki líta fram hjá því að almenningur tókst vel á við áskoranir og alls konar mál sem upp komu meðan faraldurinn stóð yfir, með miklum sóma og æðruleysi sem gerði ákvarðanir og aðgerðir stjórnvalda auðveldari og það ber að þakka.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Íbúar og samfélagið í Suðurnesjabæ

Eins og undanfarin ár fjölgaði íbúum á árinu 2022.  Í upphafi árs voru 3.745 íbúar samkvæmt þjóðskrá, en nú undir lok árs eru íbúar orðnir 3.930 samkvæmt bráðabirgðatölum.  Fjölgun íbúa telur því 185 manns milli ára, sem er um 5% fjölgun. 

Samfélagið í Suðurnesjabæ er alþjóðlegt, þar sem rúmlega 20% íbúanna eru af ýmsum þjóðernum með annan uppruna en íslenskan. Það þýðir m.a. að skólar sveitarfélagsins eru fjölþjóðlegir vinnustaðir og sem standa sig vel í sínum verkefnum. Við fögnum fjölbreytileikanum og bjóðum alla velkomna sem vilja deila samfélaginu með okkur.  Í haust var haldið upp á þann merka áfanga að 150 ár eru liðin frá því kennsla hófst í Gerðaskóla, sem er einn elsti grunnskóli landsins.  Eitt af verkefnum barnaverndar Suðurnesjabæjar er að taka utan um og þjónusta börn sem koma fylgdarlaus í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og óska eftir alþjóðlegri vernd. Þetta hefur verið mjög ört vaxandi verkefni á árinu og felur í sér ýmsar áskoranir, en við viljum taka vel á móti þessum börnum og veita þeim öryggi.  Umfjöllun var um þetta verkefni í Víkurfréttum nú í lokaviku ársins. Stofndagur Suðurnesjabæjar og þar með afmælisdagur er 10. júní og í ár bauð sveitarfélagið íbúum sínum upp á ís í tilefni dagsins. Í byrjun ársins náðist sá langþráði áfangi að opnuð var dagdvöl fyrir aldraða sem ber að fagna enda felur sú starfsemi í sér aukna þjónustu við elstu íbúana.  Þessi starfsemi er í samstarfi við Sveitarfélagið Voga og hefur starfseminni borist ýmsar góðar gjafir og er þakkað fyrir það.

Framkvæmdir og skipulagsmál

Mikið var um að vera í framkvæmdum í Suðurnesjabæ á árinu 2022.  Á vegum sveitarfélagsins bar hæst nýbygging leikskóla í Sandgerði, sem mun halda áfram af fullum krafti á árinu 2023.  Þá má m.a. nefna að unnið var að gatnagerð og uppbyggingu innviða í nýjum íbúðahverfum í báðum byggðalögunum, en mikil eftirspurn hefur verið eftir íbúðalóðum.  Í samstarfi við Fjarskiptasjóð og Mílu var hafin lagning ljósleiðar í dreifbýli, sem er langt komið nú í lok ársins og mun það breyta mög búsetuskilyrðum fólks í dreifbýli sveitarfélagsins.

Vinnsla á nýju aðalskipulagi fyrir Suðurnesjabæ er á lokaspretti nú undir lok ársins, en í því felst m.a. mikilvæg stefnumótun um þróun og uppbyggingu í sveitarfélaginu næstu áratugina.  Þá hefur verið unnið að deiliskipulagi fyrir nokkur svæði, m.a. til þess að sveitarfélagið geti mætt eftirspurn eftir lóðum fyrir íbúðir og atvinnustarfsemi á næstu misserum.  Undir árslokin er Kadeco að ljúka við vinnslu þróunaráætlunar um uppbyggingu á landsvæðinu í nágrenni Keflavíkurflugvallar, en því má halda fram að þetta svæði sé eitt verðmætasta uppbyggingarsvæði á landinu til framtíðar.  Í því felast mjög miklir möguleikar og tækifæri fyrir Suðurnesjabæ, Suðurnesin og í reynd landið allt til uppbyggingar á atvinnustarfsemi sem mun hafa mjög jákvæð áhrif til lengri tíma litið.

Atvinnumál

Eftir samdráttartíma frá falli WOW Air 2019 og síðan heimsfaraldur Covid-19 sem hófst í ársbyrjun 2020, sem olli samdrætti í atvinnustarfsemi og miklu atvinnuleysi á svæðinu þá hefur á örstuttum tíma orðið alger viðsnúningur.  Eftir að öll höft voru aflögð og alþjóðaflug fór aftur á flug, hafa umsvif á alþjóðaflugvellinum í Suðurnesjabæ aukist mjög mikið með jákvæðum áhrifum á ýmsa afleidda atvinnustarfsemi og m.a. leitt til fjölgunar starfa.  Gert er ráð fyrir að mikil aukning verði á umsvifum á og við flugvöllinn í nánustu framtíð, en nú standa yfir miklar framkvæmdir við stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að mæta þeim auknu umsvifum sem fyrirsjáanlegt er að verði.  Sjávarútvegurinn hefur gengið vel og atvinnustarfsemi almennt hefur gengið vel á árinu.  Allt hefur þetta orðið til að fjölga störfum og skapa eftirspurn eftir vinnuafli, sem hefur haft mjög jákvæð áhrif ef litið er til atvinnustigs og atvinnuþátttöku á svæðinu.  Með mikilli fjölgun ferðamanna sem sækja Ísland heim hefur ferðaþjónustan blómstrað á nýjan leik og fjölgaði veitingastöðum í Suðurnesjabæ á árinu þegar tveir nýir veitingastaðir hófu starfsemi. 

Menningarstarfsemi og íþróttir

Eftir að menningarstarfsemi var mjög takmörkuð vegna samkomutakmarkana á tímum covid, lifnaði menningin heldur betur við á árinu.  Daginn eftir að fjöldatakmarkanir á samkomum voru nánast aflagðar í lok febrúar hélt starfsfólk Suðurnesjabæjar sína árshátíð og var það líklega fyrsta fjöldasamkoman sem haldin var í landinu eftir að samkomutakmarkanir voru nánast aflagðar.  Bæjarhátíðin var haldin í byrjun september í blíðskapar veðri og við bestu aðstæður.  Íbúar og gestir tóku mjög mikinn og góðan þátt í dagskrá hátíðarinnar og fjölmargir aðilar, fyrirtæki og aðrir veittu hátíðinni stuðning sem skiptir miklu máli og er þakkað.  Eftir stofnun Menningarsjóðs Suðurnesjabæjar var fyrsta úthlutun úr sjóðnum í maí, öll þau verkefni sem hlutu styrk hafa litið dagsins ljós og auðga mjög menningarlífið í Suðurnesjabæ.  Ljósin á jólatrjám bæjarins voru tendruð þann 1. desember. Mikið líf var í starfsemi safna sveitarfélagsins á árinu, þar sem meðal annars voru opnaðar nýjar sýningar í byggðasafninu á Garðskaga eftir miklar breytingar þar.  Þá voru ýmsir aðrir viðburðir haldnir á árinu.  Nú í lok ársins hófst svo listahátíðin Ferskir vindar, sem mun standa fram eftir janúar mánuði.  Að venju var valinn og heiðraður íþróttamaður ársins í upp hafi ársins.  Að þessu sinni var Rúnar Þór Sigurgeirsson knattspyrnumaður valinn íþróttamaður ársins 2021.  Íþróttastarfsemi var að mestu með hefðbundnu sniði á árinu, þar sem mest fór fyrir knattspyrnu.

Náttúran

Mörgum finnst vera auknir öfgar í veðurfari frá því sem áður var. Við fengum erfiða vetrartíð í febrúar, með miklum sjógangi og snjó og eftir miðjan desember skall á vetrarveður með meiri snjó í byggð en elstu menn muna. Mikið álag var á starfsmönnum við snjómokstur og hreinsun gatna, þar var vel að verki staðið og ber að þakka.  Veðurfar fram eftir hausti var hins vegar með besta móti og einnig var gott sumarveður á köflum í sumar.  Þá má ekki gleyma eldgosinu sem braust upp síðsumars í Meradölum, en það var annað eldgosið sem braust upp á því svæði á tveimur árum.  Eldgosið stóð frekar stutt yfir og því lauk nánast jafn snöggt og það hófst.  Jarðfræðingar halda því fram að við megum eiga von á fleiri eldgosum á Reykjanesi í nánustu framtíð, ef svo fer þá vonum við að náttúran fari mjúkum höndum um okkur og það hafi ekki áhrif á innviði okkar á svæðinu.  Góð reynsla hefur orðið til eftir tveggja ára umbrot í náttúrunni á svæðinu, ef litið er til viðbragðsaðila og þeirra sem þurfa að stjórna aðgerðum og sjá til þess að slíkir atburðir hafi sem minnst neikvæð áhrif á líf og störf fólks.

Bæjarstjórn

Í maí voru sveitarstjórnarkosningar þar sem kjósendur kusu sér níu fulltrúa bæjarstjórn til næstu fjögurra ára.  Mikil endurnýjun varð meðal kjörinna fulltrúa, sex nýir bæjarfulltrúar voru kosnir í bæjarstjórn og er það ágæta fólk boðið velkomið til starfa í þágu sveitarfélagsins með ósk um velfarnað allra bæjarfulltrúa í þeirra störfum.  Á sama hátt luku sex bæjarfulltrúar störfum í bæjarstjórn og er þeim þakkað þeirra framlag við störf að málefnum sveitarfélagsins undanfarin ár.  Ný bæjarstjórn samþykkti sína fyrstu fjárhagsáætlun í byrjun desember, þar sem mótuð var stefna í starfsemi sveitarfélagsins næstu misseri og ár. 

Framtíðin

Nú við áramót er tekið á móti nýju ári með eftirvæntingu og það verður áhugavert að rifja upp að ári hvað árið 2023 mun bera í skauti sér.  Miklar fjárfestingar munu verða á vegum sveitarfélagsins, þar sem bygging á nýjum leikskóla mun vega þyngst.  Mikill kraftur er í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og er fyrirsjáanlegt að íbúum muni fjölga enn frekar á næsta ári. Það verður spennandi að fylgjast með því þegar íbúafjöldi í Suðurnesjabæ mun fara yfir 4.000.  Megin stefna og markmið bæjarstjórnar er að halda áfram að veita íbúum sínum góða þjónustu m.a. með því að halda áfram að byggja upp innviði og efla starfsemi til að þjóna íbúum sem best.  Samkvæmt könnunum meðal íbúa Suðurnesjabæjar eru þeir almennt mjög ánægðir með sitt sveitarfélag og búsetu í sveitarfélaginu. Það er ánægjulegt og er í takti við þau markmið sem bæjarstjórn vinnur að.

Ég óska íbúum Suðurnesjabæjar, starfsfólki og bæjarstjórn farsældar á komandi ári með þökk fyrir ánægjulega samfylgd og samstarf á árinu 2022.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar.

(Þessi pistill var birtur á vef Suðurnesjabæjar og er endurbirtur hér á vf.is)