Aðsent

Verði ég heilbrigðisráðherra
Föstudagur 7. maí 2021 kl. 15:48

Verði ég heilbrigðisráðherra

Heilsugæslan er ein af okkar stærstu áskorunum hér á Suðurnesjum. Í mínum huga er krafan einföld, við eigum rétt á fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu í heimabyggð og sættum okkur ekki við minna. Það hefur hins vegar ekki gengið þrautalaust að efla heilsugæsluna og augljóst að hér líðum við fyrir nálægðina við höfuðborgarsvæðið. Það er eðlilegt að íbúar spyrji af hverju málum er svona háttað. Öll viljum við hafa greiðan aðgang að góðri heilsugæslu og almennri heilbrigðisþjónustu heima í héraði. Við viljum vera stolt af okkar heilbrigðisstofnun. Auk þess að tryggja íbúum öryggi og góða þjónustu skapar slíkur rekstur byggðunum sóknarfæri. Öflug heilsugæsla laðar að bæði sérhæft starfsfólk og nýja íbúa.

Við getum öll verið stolt af því góða fólki sem vinnur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Það kappkostar að veita framúrskarandi þjónustu. Ég upplifði það þegar tveir af þremur sonum mínum fæddust á HSS og þegar ég hef þurft að leita með þá á slysadeildina eða til barnalæknis. Ég hef sagt við stjórnendur HSS að ég sé ekki jafn sáttur við stjórnun, skipulag og þann skort á metnaði sem sýndur er á stofnuninni. Aðrar heilbrigðisstofnanir sem eru í kringum höfuðborgarsvæðið hafa sýnt að það er hægt að ná árangri með þeirri löggjöf, heilbrigðisstefnu og fjárlög sem eru í gildi og hafa verið samþykkt nú þegar á Alþingi. Mestu máli skiptir að heilbrigðisráðherrann, ráðuneytið og yfirstjórn stofnana spili sem best úr því sem Alþingi ákveður.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Allt í kringum okkur eru skýr dæmi um að vel hafi spilast úr. Heilbrigðisstofnun Vesturlands hefur t.d. með miklum metnaði náð að byggja upp öfluga fæðingaþjónustu og sinna fjölda skurðaðgerða. Heilsugæsluþjónusta höfuðborgarsvæðisins umbreyttist til betri vegar þegar einkareknum heilsugæslum var fjölgað og samkeppni innleidd á milli heilsugæslustöðva um hver veitir bestu þjónustuna. Breytt fjármögnunarkerfi varð til þess að þessi samkeppni skapaðist, biðlistar hurfu, betur gekk að manna heilsugæsluna þannig að allir fá úrvals þjónustu. Nú hefur þetta fjármögnunarkerfi verið innleitt um land allt. Annað þarf því ekki til en að heimila Sjúkratryggingum Íslands að semja við heilbrigðisstarfsfólk um að starfrækja sjálfstætt starfandi heilsugæslu á Suðurnesjum til að stórefla þá heilbrigðisþjónustu sem íbúum Suðurnesja gæti staðið til boða. Stór kostur er að það krefst ekki aukins fjármagns og myndi ekki auka kostnað íbúanna, frekar draga úr greiðsluþátttöku notenda.

Þessu gæti ég kippt í liðinn með einum tölvupósti til Sjúkratrygginga væri ég heilbrigðisráðherra. Það yrði raunar mitt fyrsta embættisverk að skrifa slíkan tölvupóst enda löngu tímabært að Suðurnesin eigi slíkan málsvara. 

Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og frambjóðandi í 1. sæti.