bygg 1170
bygg 1170

Aðsent

Sumarstemning óskast - Lokaorð Ragnheiðar Elínar
Fimmtudagur 15. ágúst 2019 kl. 12:31

Sumarstemning óskast - Lokaorð Ragnheiðar Elínar

Þetta yndislega sumar sem bráðum víkur fyrir haustinu, ef marka má veðrið síðustu daga, fer klárlega í sögubækurnar. Það er búið að vera hlýtt, sólríkt og logn meira eða minna síðan í byrjun maí. Við hjónin, sem aldrei náðum að bera á pallinn í fyrrasumar vegna rigningar, rukum til og bárum á hann núna í byrjun maí, þar sem við óttuðumst að það yrðu einustu sólardagarnir í sumar. Við pössuðum okkur líka að henda okkur alltaf lárétt á pallinn um leið og við komum heim þar sem við vorum handviss um að þetta hlyti að vera síðasti sólardagurinn í sumar. Það var grillað sem aldrei fyrr og hvítvínsdrykkja að degi til var oftar en ekki réttlætt með því að þetta hlyti nú að fara að taka enda. Enda spáði reglulega rigningu, en ólíkt því sem gerðist í fyrrasumar þá gekk rigningarspáin aldrei eftir.

Við ferðuðumst líka um landið í sumar – alls staðar í dásamlegu veðri og eina rigningin sem við lentum í var í Vaglaskógi. Það hlakkar alls ekki mikið í mér yfir veðurfarslegum óförum Norðlendinga og Austfirðinga þetta sumarið – við áttum þetta bara meira skilið núna. Og ég er þakklát. Mér finnst þetta alveg geggjað.

Ég velti hins vegar einu fyrir mér eftir að hafa setið úti á troðfullum veitingahúsum og kaffihúsum í pínulitlum þorpum og bæjum víða um land í sumar – af hverju náum við ekki upp svoleiðis stemningu í miðbæ Keflavíkur á fallegum sumardögum? Af hverju förum við ekki meira niður í bæ til að sýna okkur og sjá aðra, af hverju dúkka ekki upp sumarmarkaðir, götuleikhús, úti borð og stólar upp og niður Hafnargötuna í svona einmuna veðurblíðu? Mig langar í mannlíf í miðbæinn okkar. Ég fer samt ekkert frekar en aðrir niður í bæ á góðviðrisdögum, ég held mig á pallinum þar sem mér finnst einfaldlega ekkert í miðbæinn okkar að sækja. 

Ég held samt að það sé hægt að breyta þessu, en ég held líka að það þurfi að gera það með markvissum hætti í samstarfi bæjaryfirvalda, veitinga- og verslunarmanna og okkar íbúa. Við viljum búa í lifandi, skemmtilegum og fallegum bæ þar sem alls konar er í boði. Og þá verðum við líka að mæta og taka þátt. 

Við vitum öll hvað það er gaman á Ljósanótt þegar bærinn er allur á iði og allt að gerast. Þá mætum við. Ég held að það væri hægt að venja okkur við að rölta í bænum fleiri daga á ári.