Aðsent

Styrkjum Suðurkjördæmi
Föstudagur 7. maí 2021 kl. 15:56

Styrkjum Suðurkjördæmi

Styrkjum Suðurkjördæmi

Sem oddviti sveitarfélags síðastliðin tvö kjörtímabil, og rekstraraðili hótels á landsbyggðinni síðustu tuttugu ár, hef ég reynt á eigin skinni hvernig lífsbaráttan harðnar þegar fjær dregur höfuðborgarsvæðinu. Flutningsgjöld, margfaldur rafmagnskostnaður, það að þurfa að útvega starfsfólki sínu húsnæði, jafnvel byggja yfir það. Krafan um fæði og uppihald, hvernig þjónusta, fyrirtæki og stofnanir færast eins og fyrir náttúrulögmál til höfuðborgarinnar. Kostnaður við að sækja sjálfsagða og lífsnauðsynlega þjónustu eykst að sama skapi. Við skulum ekki einu sinni byrja á að ræða samgöngukerfið. Þið sem keyrið Suðurkjördæmið á enda komist fljótlega að því að eftir því sem austar dregur mjókkar vegurinn og viðhald versnar. Bara á liðnu ári fór bíllinn okkar í þrjár bílrúðuskiptingar vegna steinkasts frá öðrum bílum. Tvöföldun á Reykjanesbraut er ekki ennþá orðinn veruleiki þrátt fyrir að sú leið sé lífæð allrar ferðaþjónustu í landinu. Af mörgu er að taka.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ég er vön því að berjast fyrir mitt sveitarfélag og sem formaður Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga fyrir sunnlensk sveitarfélög. Stanslaus hagsmunabarátta fyrir innviðum, stofnunum, þjónustu og fyrirtækjum er nauðsynleg til að tryggja það að Suðurkjördæmi bjóðist jöfn tækifæri þegar kemur að þessum málaflokkum. Ég mun á næstu vikum sækja heim fólk og fyrirtæki á Suðurnesjum og kynna mig og mín baráttumál. Hlakka til að sjá ykkur þrátt fyrir Covid. Framundan eru bjartir tímar.

Ég gef ekki kosningaloforð sem ekki er hægt að uppfylla en ég gef ykkur loforð um að berjast fyrir Suðurkjördæmi allt. Oft er þörf en nú er nauðsyn. Stöndum vörð um störf og fyrirtæki. Sækjum fram því sókn er besta vörnin.

Höfundur:
Eva Björk Harðardóttir sækist eftir 2.–3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi.