Aðsent

Stefna Samfylkingarinnar til betra lífs
Miðvikudagur 8. september 2021 kl. 13:40

Stefna Samfylkingarinnar til betra lífs

Stefnan okkar og áherslur fyrir komandi Alþingiskosningar ber heitið Betra líf. Þar er einkum horft til þeirra áherslna um að tími sé kominn til að breyta til. Breyta Alþinginu okkar og hagsmunum fárra.

Stefnan okkar að byggja upp betri heilbrigðisþjónustu er okkur gríðarlega mikilvæg og er markmið sem hefur verið mér hugfangið frá árinu 2009 þegar ég útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þessi stefna snýr ekki síst að okkur Suðurnesjamönnum. Árum saman höfum við búið við minna umfang heilbrigðisþjónustu þegar miðað er við aðra landshluta. Næstum enginn okkar er með fastan heimilislækni en skortur á læknum og þar af leiðandi læknatímum hefur einkennt samfélagið okkar  allt of lengi. Afleiðingin er sú að margir af okkar heimamönnum hafa gefist upp og hafa í þúsundum talið flutt sig á heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi kostnaði.

Á sama tíma og við stöndum frammi fyrir því að einungis ein heilsugæsla sé á svæði fyrir 30.000 manns, er kerfið okkar í heild sinni vanfjármagnað. Oft sjáum við fréttir um að aldrei hafi verið sett meira fjármagn í kerfið sem setur fram þversögn miðað við aðrar fréttir um mikið álag á starfsfólk og lokun rúma vegna manneklu. Árið 2019 fjárfesti Ísland 8,6% af vergri landsframleiðslu í heilbrigðismál sem setur okkur í sautjánda sætið yfir OECD löndin. Fjárveitingar hafa aukist til heilbrigðiskerfisins en samt sem áður eru útgjöld á hvern íbúa á Íslandi lægri en á hinum Norðurlöndunum.

Kostnaður er þó ekki eina vandamálið heldur mannekla þar sem flótti er úr heilbrigðisstéttum, sérstaklega hjá hjúkrunarfræðingum. Það sem við verðum að spyrja okkur að þegar við horfum til framtíðar er:

Hvernig ætlum við að fá hjúkrunarfræðinga aftur til starfa í kerfinu?

Hvernig ætlum við að bæta starfsumhverfi og öryggisviðmið hjúkrunarfræðinga og tryggja ánægju þeirra í starfi?

Ég get lofað ykkur því að gagnrýni, að gera lítið úr vandamálinu og leggja til fleiri lyftara í kerfið líkt og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur gert, fara ekki vel ofan í heilbrigðisstarfsfólk sem hefur staðið vaktina fyrir okkur í heimsfaraldri.

Í stefnu heilbrigðismála Samfylkingar kemur fram að við ætlum okkur að auka fjármagn til opinberrar heilbrigðisþjónustu og stytta biðlista. Biðlisti eftir liðskipta aðgerðum og kvenna aðgerðum er allt of langur.

Samfylkingin mun setja geðheilbrigðismál í öndvegi þar sem fólk þarfnast slíkrar þjónustu í mun meira magni en verið er að veita. Þjónustan er of dýr og allt of löng bið er eftir henni en geðheilbrigði er eitthvað sem við getum ekki látið sitja á hakanum.

Forvarnir verða lykilatriði þar sem einblínt verður sérstaklega á lýðheilsuvísa Landlæknis. Á Suðurnesjum þarf  aukið aðgengi að forvörnum og hugarfarsbreytingu gangvart forvörnum í formi leg- og brjóstaskoðun kvenna, andleg heilsa ungmenna í 8-10 bekk er lakari á Suðurnesjum en að landsmeðaltali auk þess sem að dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdómum er hærri. Til þess að efla forvarnir ætlum við að opna nýja heilsugæslu i Innri Njarðvík strax á næsta ári með tryggðri fjármögnun og reyna með öllum ráðum að ráða til okkar fagfólk til starfa.

Við ætlum okkur að efla heimahjúkrun til þess að eldra fólki gefist kostur á að búa lengur heima og einnig munum við styrkja rekstur hjúkrunarheimila.

Við ætlum að efla kjör og starfsaðstæður heilbrigðisstarfsfólks til að við náum að halda í sérfræðingana okkar en í dag hættir 4-5 hver hjúkrunarfræðingur störfum eftir einungis fimm ár í starfi. Við getum aukið inntöku í námið eins og við viljum en við verðum að leita allra leiða til að halda í sérhæfða fólkið okkar.

Við ætlum okkur stóra hluti og höfum efni á þeim. Við lofum ekki innantómum loforðum heldur raunverulegum aðgerðum.

Kjósum Samfylkinguna fyrir Betra líf og komum Oddnýju að sem næsta heilbrigðisráðherra Íslands.

Guðný Birna Guðmundsdóttir
í 3. sæti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi