bygg 1170
bygg 1170

Aðsent

Sigurganga Reykjanesbæjar
Þriðjudagur 23. júlí 2019 kl. 09:37

Sigurganga Reykjanesbæjar

Met í álagningu fasteignagjalda

Reykjanesbær hefur á síðustu árum slegið hvert metið á fætur öðru í álagningu fasteignagjalda ef marka má úttekt verðlagseftirlits ASÍ sem birt var 12. júlí sl. Samkvæmt úttektinni hefur fasteignaskattur í Reykjanesbæ hækkað hvað mest allra sveitarfélaga vegna breytinga á fasteignamati og nemur hækkunin í fjölbýli allt að 136% síðan 2013. Sveitarfélagið skýtur þar öðrum sveitarfélögum ref fyrir rass með vasklegri framgöngu sinni þar sem það sveitarfélaga sem á eftir kemur er Reykjavíkurborg með 65,7% hækkun. Þegar kemur að sérbýlum er svipaða sögu að segja og nemur hækkun fasteignaskatts í Reykjanesbæ allt að 124% og er sigurinn afdráttarlaus þar sem Fjarðarbyggð með 71,7% hækkun kemst ekki með tærnar þar sem Reykjanesbær hefur hælana. Sömu sögu er að segja þegar kemur að lóðaleigu þar sem Reykjanesbæar ber sigur úr býtum enn og aftur með rúmlega 122% hækkun á innheimta lóðaleigu á fjölbýli og rúmlega 106% í sérbýli.

Þróunin

Fasteignaskattar eru ásamt útsvari og framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga helstu tekjustofnar sveitarfélaga og um þá gilda ákvæði laga nr. 4/1995 þar sem kveðið er á um að stofn til álagningar fasteignaskatts skuli vera fasteignamat þeirra. Hækkun fasteigna- og lóðamats á síðustu árum hefur haft mikið að segja við hækkun fasteignagjalda en í því sambandi skiptir álagningarhlutfall sveitarfélaganna sköpum til að stemma stigu við þessari hættulegu þróun.

Fjölmörg sveitarfélög hafa brugðist við hækkandi fasteignamati og lækkað álagningarprósentu fasteignaskatts umtalsvert, t.a.m. flest sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Akraneskaupstaður sem og sveitarfélagið Áborg hafa brugðist við breytingum á fasteignamati með umtalsverðri lækkun eða um 7% lækkun á álagningarhlutfalli. Þar gera menn sér grein fyrir mikilvægi þess að halda í samkeppnishæfni vegna nálægðarinnar við höfuðborgina. Það er aðdráttarafl fyrir ungt fjölskyldufólk á höfuðborgarsvæðinu sem vill stærra húsnæði á lægra verði að flytja í sveitarfélög í stuttri akstursfjarlægð frá Reykjavík. Þá er ekki í boði að fasteignaskattar séu úr hófi, hvorki fyrir íbúa né fyrirtæki. Hætta er á að íbúar hugsi sig tvisvar um áður en þeir fjárfesta í húsnæði í Reykjanesbæ og fælingarmátturinn verði það mikill að atvinnulífið hörfi annað.

Viðbrögðin

Við lestur þessarar greinar skyldu menn ekki ætla að höfundur sé ekki meðvitaður um viðbrögð margra lesenda. Einhver þurfi nú að borga fyrir óráðsíu og skuldasöfnun sem varð í tíð Sjálfstæðisflokksins.

Hins vegar skal á það líta að ef borin eru saman síðustu tvö kjörtímabil þá er tekjuaukningin um 18 milljarðar. Eftirköst hrunsins og brotthvarfs varnaliðsins komu harðast niður á íbúum Reykjanesbæjar og var það ekki bara verulegur tekjumissir heldur á sama tíma aukin útgjöld í félagslega kerfið. Á sama tíma var unnið ötullega að lóðarframkvæmdum sem hafa skilað sér í mikilli aukningu íbúa án tilkostnaðar sem skapað hafa mikinn tekjuauka bæði í útsvari og fasteignagjöldum.

Þau rök sem helst hafa verið viðhöfð af núverandi meirihluta eru þau að við gerð aðlögunaráætlunar (sem samþykkt var af Eftirlitsnefnd sveitarfélaga) hafi tekjur af fasteignagjöldum verið meitlaðar í stein og loku fyrir það skotið að lækka álagningarstuðulinn. Þessum rökum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokks hafnað, enda er ekkert sem segir að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga geri athugasemdir við hófsamari fasteignagjöld þegar aðrar skatttekjur aukast á móti.

Það er hins vegar komið að þolmörkum hjá íbúum Reykjanesbæjar enda eru fasteignagjöldin farin að slaga hátt upp í afborganir af húsnæðislánum. Við þessu verður núverandi meirhluti að bregðast ef sveitarfélagið ætlar að halda í samkeppnishæfni sína og vera aðdráttarafl sem fjölskylduvænt samfélag.

Hanna Björg Konráðsdóttir
Höfundur er lögfræðingur og varabæjarfulltrúi fyrir D - listann í Reykjanesbæ