bygg 1170
bygg 1170

Aðsent

Munu siðblindingjarnir ráða för?
Föstudagur 30. ágúst 2019 kl. 07:58

Munu siðblindingjarnir ráða för?

Íbúar Reykjanesbæjar fagna samfélagslegum áhrifum af aukinni atvinnustarfsemi í Helguvík‚ einnig fjölgun íbúa og fjölbreyttari atvinnuháttum. Þessi aukning má hins vegar ekki verða á kostnað heilsufars íbúa. Einmitt þar stendur hnífurinn í kúnni hvað varðar starfsemi kísilvera í Helguvík. Engir af þeim aðilum er komu að málinu í upphafi gerðu sér grein fyrir hvílík mistök voru í uppsiglingu. Eftir á að hyggja er það nú deginum ljósara hver vitfirring það var að veita þessari atvinnustarfsemi starfsleyfi svo nálægt íbúðabyggð sem raun ber vitni. Og í raun óskiljanlegt að hámenntað fólk á sviði raunvísinda skuli leggja nafn sitt við að vilja hefja þessa ósvinnu aftur svo nálægt íbúabyggð. 

Reynslan af tveim kísilverum er ekki góð. Kísilvinnsla United Silicon sem var í gangi (2016–2017) og nú kísilvinnsla PCC á Bakka ættu að vera víti til varnaðar. Við skulum skoða nokkrar fyrirsagnir á þessu ári úr fjölmiðlum vegna starfsemi kísilverksmiðju PCC á Bakka við Húsavík. 

RUV 27.02.2019 Lykt og reykur frá kísilverksmiðju PCC á Bakka | RÚV

Vísir 23 mar. 2019 ... Berjast við vatnsleka frá kælikerfi hjá PCC á Bakka

Vísir 27 mar. 2019 ... Eldur í kísilverksmiðju PCC á Bakka

Mbl 17.4.2019 | Aðeins kveikt á Boga næstu vikur (annar af tveim ofnum PCC á Bakka)

Kveikt var á fyrsta ofni, sem þeir kalla Birtu, á sumardaginn fyrsta 2018. Hinn ofninn kalla þeir Boga. Ekki eru tínd hér til mengunarslysin frá 2018 en að meðaltali eru þessar uppákomur á rúmlega mánaðar fresti hjá þeim á fyrsta starfsári. Áratuga reynsla og þekking á rekstri kísilvera og framleiðslu hrákísils er til staðar hjá PCC Group, sem eiga PCC BakkiSilicone á Húsavík. Þeim tekst samt ekkert betur upp en starfsmönnum United Silicon á sínum tíma. Umrædd slys hafa orðið og eru örugglega þungbær fyrirtækjunum og starfsfólki þess. Ekki er vafi á að vilji allra er að koma í veg fyrir þau. Í fréttum af þessum uppákomum er ekki minnst á mengunar- og eitrunaraukninguna sem þeim fylgir og bætist væntanlega ofan á þau 2% eiturefna sem fylgja hverju kílói af kísli og blásið er út í andrúmsloftið samkvæmt heimildum Skipulags- og umhverfisstofnunar.

Jón Steinar Gunnlaugsson birti nýlega greinarstúf í Morgunblaðinu, sem hann nefnir „Hugleiðing um siðblind“. Þar er meðal annars eftirfarandi málsgrein: 

„Í raun og veru er það skortur á tilfinningatengslum sem framar öðru gerir siðblindingjann hættulegan um leið og hann kann að verða valdamikill. Honum er sama um afleiðingar sem athafnir hans og ákvarðanir hafa á aðra og óttast ekki slíkt með neinum hætti. Um hann er stundum sagt að hann þekki ekki muninn á réttu og röngu.“

Okkur sem búum í Reykjanesbæ finnst eins og banksterunum í Aríon banka sé í sjálfu sér alveg sama hvað miklu eiturmagni verður dælt út í andrúmsloftið frá Helguvík, eða hvort heilsufari bæjarbúa verði ógnað. Þeir kæra sig kollótta um þó að bærinn verði mengaðasti bær landsins. Þeim er líklega einnig alveg sama þó að verksmiðjan verði ljótasta bæjartákn landsins. Þeirra eina hugsun og markmið virðist vera að koma þessu í gang aftur og selja síðan í kjölfarið. Ná til sín eins miklum peningum og hægt er, burtséð frá afleiðingunum. Algjör siðblinda í hnotskurn.

Margt bendir til að í þessu muni siðblindingjarnir ráða för en við bæjarbúar þurfum að beita öllum ráðum til að afstýra hættunni. Ekki láta tæla okkur með fagurgala eða hræða okkur með röngum sakargiftum og hótunum um málaferli. Íbúar Reykjanesbæjar eiga að ráða hér för, ekki þeir siðblindu.

Reykjanesbæ 19. ágúst 2019
Tómas Láruson.