Aðsent

Lokaorð Sævars Sævarssonar- Veiðimennskan
Föstudagur 20. júlí 2018 kl. 06:00

Lokaorð Sævars Sævarssonar- Veiðimennskan

Íslendingar elska laxveiði. Svo mikil er ástin á laxveiði að það minnir orðið á ást okkar á borðbúnaði frá Iittala, Jón í lit veggplöttum, lögum með U2 og Sálinni og hjólreiðum. En hver er ég að dæma? Maður sem býr á heimili sem prýtt er fyrrgreindum hlutum í meiri mæli en góðu hófu gegnir og þó ég þoli illa hljómsveitina U2 er ég ekki saklaus af því að hafa keypt mér allt of dýrt Cyclocross-reiðhjól sem ég hef notað sjaldnar en Saladmaster-rifjárnið sem mér áskotnaðist í pottakynningu um árið.

Nú er svo komið að ég hef smitast af laxveiðidellu. Það gerðist eiginlega óvart, því þó ég hafi farið reglulega í laxveiði undanfarin tíu ár er það nýskeð að ég sækist í að vera úti í ánni. Áhugi minn lá nefnilega fremur í að veita félagsskap við bakkann og sjá um hina svokölluðu „gleðistund“. Þolinmæði mín hreinlega náði ekki yfir þá iðju að standa úti í á og bíða eftir því að fiskur myndi narta í örsmáa og fislétta flugu sem fest væri á glæran taum. Það var ekki fyrr en ég fann fyrstu tökuna, þegar ég missti fyrsta fiskinn, að ég fann eitthvað brjótast um innra með mér. Þetta var tilfinning sem ég hafði ekki fundið fyrir áður, ef frá eru teknar nokkrar veiðitilraunir á böllum í Stapanum. Þetta var veiðieðlið – veiðiþráin! Þarna var hún og vá hvað ég ætlaði mér að næla í helvítið í næsta kasti (hér er ég að sjálfsögðu hættur að tala um böllin).

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Köstin urðu fleiri og veiðiferðunum fjölgaði og það tókst að lokum, með góðri hjálp frá gæða „gæd“, að ég veiddi „Maríuna“ við svo mikla gleði að nú er veiðigreddan orðin banvæn. Það er þó kannski rétt að árétta að hér er ég enn að tala um laxveiði, þ.e. þetta hefur ekkert að gera með Hildi Maríu, verðandi eiginkonu mína, því þó ég vilji nú meina að taktar mínir í Stapanum fyrir um 18 árum hafi verið álíka klunnalegir og tilþrif mín í ánni þurfti ég a.m.k. ekki aðstoð frá „gæd“ né örsmátt agn til að landa henni. Ætli megi ekki segja að agnið sé svona miðlungs ...