Aðsent

Hver nennir pólitískum skylmingum?
Laugardagur 4. september 2021 kl. 10:03

Hver nennir pólitískum skylmingum?

Það kemur mér ekki á óvart að komandi kosningar snúist um heilbrigðismál. Í síðasta blaði Víkurfrétta mátti líta heilar fjórar greinar eftir frambjóðendur til Alþingis sem allar snerust um málaflokkinn. Ráðherra málaflokksins síðustu fjögurra ára fór yfir stöðuna frá sínu stjórnarhorni, oddviti Sjálfstæðisflokksins talaði fyrir auknum einkarekstri, oddviti Samfylkingar talaði um mikilvægi hins ríkisrekna kerfisins og frambjóðandi Miðflokks talaði um afglöp heilbrigðisráðherra. Nú væri auðvelt að ráðast á einstaka þætti þessara greina og benda á margt sem er ekki alveg nákvæmt eða ekki mér að skapi en ég ætla alveg að sleppa pólitískum skylmingum. Frekar ætla ég að gera tilraun til þess að hafa greinina eins hnitmiðaða og mér er frekast unnt og benda á það augljósa.

Við leysum ekki málin með því að plástra kerfið endalaust

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Heilbrigðismál snúast ekki bara um heilsugæslu eða fjölda hjúkrunarrýma. Heilbrigðismál snúast ekki bara um fjölda heimilislækna eða vinnuumhverfi starfsfólks í heilbrigðisþjónustu. Málaflokkurinn er ekki bara sjúkrahúsþjónusta eða skortur á sérfræðilæknum, heilbrigðismál snúast um heildræna heilsu okkar og það kerfi sem við höfum byggt upp í gegnum tíðina til þess að halda heilsu okkar sem allra bestri yfir æviskeiðið. Heilbrigðiskerfið okkar er bara nokkuð gott í alðþjóðlegum samanburði, eini gallinn á gjöfum Njarðar er að heilbrigðiskerfin sem við berum okkur saman við eru ekkert sérstök að flestra mati. Frakkar eru einna hlutskarpastir út frá alþjóðlegum mælikvörðum en það er þó samdóma álit sérfræðinga að helsti lösturinn á heilbrgiðisstefnum margra ríkja sé skortur á forvörnum, samráði, teymisvinnu og fyrirbyggjandi aðgerðum. Við leysum nefnilega ekki málin með því að plástra kerfið endalaust. Ok, þá vitum við það. Bregðumst þá við.

Þar vill framsókn vera

Íslendingar verja innan við 3% af útgjöldum til heilbrigðismála til forvarna. Það hljóta allir að vera sammála um það að sú skipting er varla boðleg. Við getum gert betur. Heilbrigðismál eiga að snúast mun meira um að fyrirbyggja sjúkdóma og leiðin er sú að tengja mun betur saman velferðar-, mennta- og heilbrigðiskerfið í því sambandi. Lengi býr að fyrstu gerð og því verðum við að byrja á börnunum okkar. Það er löngu sannað að ein besta heilsufarslega forvörnin liggur í virkni, menntun og félagslegri velferð barna. Þar vill Framsókn vera.

Reykjanesbær hefur með stofnun lýðheilsuráðs tekið forystu á landsvísu og lagt áherslu á heilsusamlegt umhverfi og heilsueflingu íbúa. Góður stuðningur er við þessa vegferð hjá öllum flokkum sem eiga sæti í bæjarstjórn. Reykjanesbær var eitt fyrsta bæjarfélagið til þess að taka þátt í heilsueflingu 65+ og mun þessi vegferð skila ríkulegum árangri þegar fram líða stundir. Á síðasta fundi ráðsins var ákveðið að vinna að fýsileikakönnun um aukna hreyfingu barna í grunnskólum en rannsóknir sýna að aukin hreyfing barna hefur m.a. góð áhrif á líðan þeirra og námsárangur. Framsókn ásamt samstarfsflokkum sínum hefur stutt við hækkun hvatagreiðslna til íþrótta- og tómstundaiðkunar en bæjarfélög eru misvel sett til þess að veita börnum sömu tækifæri á því sviði. Ríkið þarf að koma þar á móti og því leggur Framsókn áherslu á stuðning við íþrótta-og tómstundastarf barna fyrir komandi Alþingiskosningar. Það er mín hugsjón að á endandum verði íþróttir og tómstundir gjaldfrjálsar hér á landi. Þetta getum við gert. Þetta getum við gert til þess að draga úr kostnaði og efla heilsu þjóðarinnar til framtíðar. Það er frábær fjárfesting í fólki.

Jóhann Friðrik skrifar um heilbrigðismál og lýðheilsu.
Höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins
í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.