Aðsent

Heilsueflandi samfélag
Föstudagur 15. nóvember 2019 kl. 14:39

Heilsueflandi samfélag

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að skapa aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lífsháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa. Til að fylgja þessum markmiðum eftir þarf að gæta að þessum þáttum í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum.

Í heilsueflandi skólum er hugað vel að andlegri, líkamlegri og félagslegri velferð og vellíðan nemenda og starfsfólk í samvinnu við heimili og nærsamfélag. Leikskólar Reykjanesbæjar hafa farið fram með góðu fordæmi og eru átta af tíu leikskólum heilsueflandi. Grunnskólarnir sjö eiga eftir að huga að innleiðingu heilsueflandi þátta en Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur verið heilsueflandi í átta ár.

Eftirlit foreldra að dala?

Nýleg könnun á meðal nemenda í grunnskólum sýnir að verndandi þættir séu að dala. Þættir eins og góð andleg líðan, að foreldrar viti hvar börn þeirra séu á laugardagskvöldum, samverustundir með foreldrum og fleiri þættir koma ekki nægjanlega vel út. Um 40% nemenda í 10. bekk finna fyrir depurð vikulega eða oftar, 38% glíma við svefnerfiðleika og 17% þeirra segjast vera oft einmana. Á sama tíma er auðveldara að nálgast vímuefni. Salan er meiri og fer oft fram á samfélagsmiðlum þar sem börn og ungmenni verja miklum tíma. Tæknin er frábær, og flestir eru sammála um gagn hennar, en hún getur líka haft neikvæð áhrif á líf ungmenna.

Hvað geta foreldrar og samfélagið gert?

Spurningin er hvað hægt sé að gera til þess að efla og styrkja verndandi þætti í umhverfi barna og ungmenna til þessa að þau nýti frítíma sinn á jákvæðan hátt? Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hefur góð áhrif á líf barna. Við ættum að hvetja sem flesta til að stunda slíkt starf eftir skipulagt skólastarf. Þátttaka í skipulögðu starfi félagsmiðstöðva utan skóla er dæmi um verndandi þætti. Þar skiptir virkni foreldra máli. Í Reykjanesbæ er félagsmiðstöðin Fjörheimar. Hún hefur upp á bjóða fjölþætt klúbbastarf fyrir börn og ungmenni frá 12-18 ára aldri sem er vinsælt. Mikilvægt er að öll börn taki þátt íþrótta eða tómstundastarfi til að stuðla að verndandi þáttum í lífi barnanna.

Uppbygging íþróttamannvirkja

Samfélagið okkar hefur tekið miklum breytingum og hin gríðarlega fólksfjölgun kallar á að Reykjanesbær þarf að huga að uppbyggingu íþróttamannvirkja. Áherslan hlýtur að vera sú að skapa aðstæður fyrir öll börn í íþróttabænum okkar. Með því stuðlum við að því að samfélag okkar allra verði heilsueflandi. Anna

Sigríður Jóhannesdóttir,
BA í sálfræði, MBA. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs