Langbest
Langbest

Aðsent

Heilsueflandi  vinnustaður
Föstudagur 11. nóvember 2022 kl. 10:50

Heilsueflandi vinnustaður

Flest verjum við um þriðjungi tíma okkar við vinnu og því er mikilvægt að vinnustaðir bjóði upp á heilbrigt vinnuumhverfi og stuðli að heilsueflingu og vellíðan almennt. Vinna er góð fyrir andlega og líkamlega heilsu en neikvætt vinnuumhverfi getur leitt til líkamlegs og andlegs heilsufarsvanda og jafnvel brotthvarfs af vinnumarkaði. 

Heilsueflandi vinnustaður er verkfæri sem gerir vinnustöðum kleift að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilsu og vellíðan til góðs fyrir starfsfólk og er sameiginlegt verkefni vinnuveitenda, starfsmanna og samfélagsins alls. Verkefnið Heilsueflandi vinnustaður er samvinnuverkefni VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins og hefur það að markmiði að fyrirbyggja kulnun og draga úr líkum á því að fólk falli brott af vinnumarkaði vegna heilsubrests 

Stjórnendafélag Suðurnesja
Stjórnendafélag Suðurnesja

Á heilsueflandi vinnustað er lögð áhersla á; hollt mataræði, hreyfingu og útiveru eftir því sem við á, vellíðan starfsfólks, öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi, stjórnunarhætti sem styðja við heilsueflingu, starfshætti sem stuðla að vellíðan og hæfilegu álagi, vímuefnalausan vinnustað og umhverfisvernd.  

Mótuð voru viðmið fyrir heilsueflandi vinnustaði til að auðvelda vinnustöðum að skapa heilsueflandi vinnuumhverfi og vinna þannig markvisst að góðri vinnustaðamenningu. Á vefsvæðinu www.heilsueflandi.is er aðgangur að gagnvirku netsvæði þar sem fyrirtækjum og stofnunum í landinu gefst tækifæri á að vinna að sinni eigin heilsueflingu á vinnustað.  

Heilsueflandi vinnustaður hentar öllum vinnustöðum óháð stærð, atvinnugrein eða staðsetningu. Ávinningur vinnustaða af því að huga að heilsu starfsfólks er m.a. aukin vellíðan í starfi og meiri starfsánægja, sterkari liðsheild, betri heilsa og andleg líðan, minni líkur á veikindum og slysum, fjárfesting í mannauði, minni starfsmannavelta, meiri framleiðni og eftirsóknarverðari vinnustaður. 

Fyrirtæki og stofnanir í Reykjanesbæ eru hvött til þess að taka þátt í verkefninu og stuðla að heilsueflingu á sínum vinnustað en hægt er að skrá sitt fyrirtæki eða stofnun til þátttöku inn á www.heilsueflandi.is. Frekari upplýsingar um verkefnið má einnig finna á vefsíðu Embætti landlæknis.

Ásdís Ragna Einarsdóttir,
verkefnastjóri lýðheilsumála hjá Reykjanesbæ.