Aðsent

Grindavíkurvegurinn er lífæð Grindvíkinga
Fimmtudagur 29. desember 2022 kl. 16:04

Grindavíkurvegurinn er lífæð Grindvíkinga

Um leið og ég þakka fyrir frábæra þjónustu í snjómokstri hér innabæja vil ég hvetja bæjarstjórn og aðra sem hafa vigt í umræðunni til að líta af alvöru til vandans varðandi Grindavíkurveg. Eins og allir vita er þessi vegur lífæð Grindvíkinga - BÓKSTAFLEGA - bæði vegna þess að við sem búum í Grindavík erum á virku eldgosasvæði og varðandi atburði sem verða hvort sem okkur líkar betur eða verr, slys, veikindi og barnsfæðingar sem dæmi. 

Eldgosaváin hefur ekki verið nefnt í umræðunni varðandi lokun vegarins hingað til. En ættum við sem ábyrgt fólk ekki að horfast í augu við að öryggis okkar vegna verðum við að geta treyst því að hægt sé að opna Grindavíkurveg fyrir mikilli umferð á skömmum tíma, líka í vondu veðri. Breytingar verða að eiga sér stað svo þetta verði gerlegt, annað er einfaldlega ekki í boði. Athugum að þetta er láglendisvegur, nær flatur. Ekki fjallvegur eða brattar brekkur. Vegurinn er um 14 km ekki 40 eða 140 svo hugvit og dugur okkar ætti sannarlega að duga til, jafnvel þó norðlæg vetrarveður verði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ljóst er að sett voru vegrið við veginn til að auka öryggi í daglegum akstri en þau eru einfaldlega mannanna verk og því ekki yfir gagnrýni hafin né óbreytanleg. Það hljóta að vera margs konar leiðir til að til dæmis, setja fleiri op og útskot, taka  vegriðin á þeim stöðum sem eru erfiðastir eða eitthvað slíkt. Ég er að sjálfsögðu ekki sérfræðingur á sviði vegagerðar en er alveg viss um að margir frábæri einstaklingar hafa þekkingu til að kippa svona í liðinn og hafa með sér í ráðum fólk sem hefur upplifað stöðvun á eigin skinni svo sem björgunarsveitina okkar frábæru. 

Víða norðanlands og austan hefur fólk líka langa þekkingu og reynslu af að glíma við mikinn snjó í vondum veðrum bæði á láglendi og fjallvegum og sú þekking ætti að vera auðfengin og þar með ráðgjöf um hvernig tæki er nauðsynlegt að hafa klár. Það eru jú til á norðurhveli jarðar margskonar snjómoksturstæki, til dæmis mjög öflugir og stórir blásara sem hægt er að setja framan á kraftmikil og öflug tæki og blása snjónum verulega langt frá. Verður ekki að vera slíkt, eða annað betra sem ég hef ekki þekkingu á hvað gæti verið, alltaf til staðar og klárt hér í Grindavík til hægt sé að opna hratt og örugglega ef það byrjar að gjósa of nærri bænum í vondu veðri og öll handriðin full af snjó? 

Það er fánýt afsökun að bera því við að fastir bílar skapi vandann. Þó það sé ákveðin útskýring er vandinn er vá, hvort sem hann skapast af föstum bílum eða ekki. Vinna þarf á vánni og koma í veg fyrir að hún myndist. Hugsanleg þarf mun stífari og viðbragðssneggri vöktun eða mun örari og öflugri sífelldan mokstur þegar veður eru verst. Ég upplifði sjálf hvað eftir annað að aka vegriðin á fjallveginum Víkurskarði í kafsnjó með sínum brekkum og beygjum og það var mögulegt vegna þess að hver fagleg og sífelld mokstursþjónustun var. Ég ítreka að ég er hvorki reyndur snjómokstursmaður né sérfræðingur í vegagerð en sem  íbúi í Grindavík og sálfræðingur spyr ég fyrir mína hönd og fleiri:

Hvernig á rýming að fara fram ef allt er ófært? Hver er afstaða Almannavarna varðandi þessa stöðu? Hvernig hefði íbúum liðið ef einmitt þessa daga hefði verið yfirstandandi löng og snörp jarðskjálftahrina eða virkt óstöðugt eldgos í bakgarðinum? Enn eru eftir janúar, febrúar, mars og svo koma fleiri íslenskir vetur. Er boðlegt að stinga höfðinu í sandinn, eða ætti ég að segja snjóinn, varðandi öryggi íbúa í Grindavík í snjóþyngslum og vetrarveðri á virku eldgosasvæði?

Kristín Linda Jónsdóttir,
sálfræðingur,

Norðurhópi 44 Grindavík


Ljósmyndir af ófærð frá Björgunarsveitinni Þorbirni.