Aðsent

Fasteignagjöld í hæstu hæðir í Suðurnesjabæ
Föstudagur 16. febrúar 2024 kl. 06:00

Fasteignagjöld í hæstu hæðir í Suðurnesjabæ

Í samningaviðræðum aðila vinnumarkaðar og launþega hafa ítrekað komið fram óskir um að ríki og sveitarfélög hafi forgöngu um að takmarka mjög hækkanir hinna ýmsu skatta og gjalda. Markmið samninga núna ganga meðal annars út á að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta. Til þess að það markmið náist er mjög brýnt að halda niðri öllum sköttum og verðlagi. Sumar verslanir, svo sem BYKO, IKEA og fleiri, hafa svarað þessu kalli og hafa jafnvel boðað verðlækkanir næstu mánuði.

Meðvitundarleysi bæjarstjórnar 

Þegar ég skoðaði álagningarseðil 2024 frá Suðurnesjabæ datt mér helst í hug að bæjarstjórnin hafi ekki verið meðvituð um ákall aðila vinnumarkaðarins um takmarkaðar hækkanir gjalda. Mér satt best að segja brá þegar ég sá að fasteignaskattur á mína fasteign hafði hækkað um rúmlega 26% frá árinu 2023 og sorpgjöld um tæp 32%. Þetta er mesta hækkun hjá mér á milli ára frá sameiningu Sandgerðis og Garðs.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Álagning fasteignaskatts tekur mið af fasteignamati sem hefur verið breytilegt frá ári til árs, yfirleitt til hækkunar. Sem dæmi hækkaði fasteignamat í Suðurnesjabæ næstmest á öllu landinu árið 2019, eða um 17,7%. Þegar hækkanir á fasteignamati eru miklar þarf bæjarstjórn að gæta þess að hlutfall álagningar lækki á móti. Það er sanngirnismál að koma í veg fyrir öfgafullar og ótímabærar hækkanir.

Ég hef ekki kannað hvort önnur sveitarfélög eru að bjóða fasteignaeigendum sömu hækkanir.

Fróðleikur um þróun fasteignagjalda

Á meðfylgjandi yfirliti, sem tekur mið af gjöldum sem lögð hafa verið á fasteign mína að Vallargötu 29, má sjá þróun fasteignagjalda í Suðurnesjabæ frá sameiningarárinu 2018 til og með 2024. Einnig má þar sjá breytingu milli áranna 2023 og 2024.


Suðurnesjabær er tekjuhæsta sveitarfélagið á Suðurnesjum á hvern íbúa árið 2021 samkvæmt árbók sveitarfélaga. Þegar skoðuð eru tuttugu fjölmennustu sveitarfélög landsins, þá er Suðurnesjabær fimmta tekjuhæsta sveitarfélagið á hvern íbúa.

„Hvers vegna vill bæjarstjórn Suðurnesjabæjar ekki vera þátttakandi í því að lækka verðbólgu?“ Það er eðlilegt að spyrja þessarar spurningar miðað við aðstæður.

Er ekki einnig eðlilegt að bæjarstjórn komi með útskýringar og ítarlegan rökstuðning til okkar bæjarbúa fyrir þessum miklu hækkunum?

Bestu kveðjur,
Jón Norðfjörð