Lagardere
Lagardere

Aðsent

Erum við að standa okkur?
Föstudagur 16. desember 2022 kl. 14:02

Erum við að standa okkur?

Erum við að standa okkur?

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar fyrir árið 2023 var samþykkt með 8 atkvæðum í bæjarstjórn þann 7. desember sl. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá og lýstum við yfir áhyggjum okkar á því að áætlunin væri ekki raunhæf og að þörf væri á faglegri vinnubrögðum.

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Rekstur sveitarfélaga er flókinn og háður ótal utanaðkomandi þáttum sem erfitt er að hafa stjórn á. Við þessar áskoranir búa þó ekki aðeins sveitarfélög heldur allur rekstur fyrirtækja og stofnana í landinu. Það er því helsta hlutverk okkar bæjarfulltrúa og stjórnenda Reykjanesbæjar að vanda til verka og gera ráð fyrir þeim þáttum sem við vitum að bregðast þarf við. 

Meirihluti Samfylkingar, Framsóknar og Beinnar leiðar segir í bókun sinni með fjárhagsáætlun 2023, að gert sé ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarniðurstöðu sem nemur 233 milljónum króna. Áætlunin er að mati bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins illa ígrunduð í ljósi reynslu undanfarinna ára og þeirra upplýsinga sem við búum yfir í dag. 

Sagan endurtekur sig, þekktar þarfir skila sér ekki í fjárhagsáætlun

Fjárhagsáætlanir eru gjarnan settar fram með 2ja-4ra ára framtíðarsýn enda ljóst að fjölmargar þarfir gera svo sannarlega boð á undan sér. Við eigum til dæmis mjög auðvelt með að fylgjast með íbúaþróun í sveitarfélaginu og hvaða þjónustu hún kallar á í framtíðinni, hvort sem um er að ræða nýfædd börn sem þurfa leikskólapláss, eða eldri íbúa sem þurfa aukna þjónustu á næstu árum. 

Á fundi bæjarráðs þann 20. janúar 2022 var lögð fram ósk um auka fjárveitingu vegna lausra kennslueininga við leikskólann Holt, til að mæta mikilli fjölgun leikskólabarna. Þessi ósk er lögð fram einum og hálfum mánuði eftir að fjárhagsáætlun ársins var samþykkt af meirihlutanum í bæjarstjórn, sem hlýtur að vera einhverskonar met. Verkefnið, að auka við húsakost leikskólans fyrir 124 milljónir er ekki þess eðlis að þörfin dúkki upp á einum og hálfum mánuði. 

Í fjárhagsáætlun ársins 2023 eru áætlaðar 300 milljónir króna í endurbætur á „Holtaskóla og öðrum skólum“ og á árinu 2024 er gert ráð fyrir að engu þurfi að verja í endurbætur þessara bygginga. Við erum þegar úti í miðri á að bregðast við mygluvanda Myllubakkaskóla og búin að áætla að það kosti okkur um 4 milljarða. Við vitum nú þegar að mygluvandi Holtaskóla er töluverður og að í öðrum byggingum þarf að bregðast við fyrr en síðar. Ef ekkert af þessu væri þegar vitað mætti halda því fram að 300 milljónir væru raunhæf áætlun. En við vitum betur, lausar stofur við Myllubakkaskóla einar og sér hafa hingað til kostað um 240 milljónir. Ljóst má vera að rekstrarafgangur ársins 2023 sem kynntur var með stolti er óskhyggjan ein miðað við þær þarfir sem þegar eru þekktar og ljóst er að bregðast þurfi við af fullum þunga. 

Endurbætur á ráðhúsi og flutningur bókasafns 

Lítum aftur til reynslu fyrri ára. Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 í bæjarstjórn fyrir um ári síðan, lagði Sjálfstæðisflokkurinn fram bókun þar sem fram kom meðal annars; „Ekki var tekið tillit til allra athugasemda minnihlutans en þó var brugðist við mörgum ábendingum og aðfinnslum. Áhyggjur okkar snúa fyrst og fremst af fyrirsjáanlegum fjárfestingum sem ekki er að fullu gert ráð fyrir í áætluninni, bæði vegna óvissu og óljósra markmiða um ráðhúsið. Í fjárfestingaráætlun er enn gert ráð fyrir 600 milljónum í endurbætur á ráðhúsi. Enn er óljóst hver endanleg niðurstaða verður en þar sem ráðhúsið er í eigu tengds félags þarf að gera ráð fyrir hærri leigu vegna hugsanlegra framkvæmda.“

Í fjárfestingaáætlun ársins 2023-2024 er enn gert ráð fyrir 600 milljónum í endurbætur á ráðhúsi þrátt fyrir að ekki sé ljóst í hverju þær eigi að felast. Á fundi bæjarstjórnar þann 6. desember sl. lagði undirrituð áherslu á að betur væri staðið að þarfagreiningu þegar rætt er um framtíðarfyrirkomulag og húsnæðismál í starfsemi sveitarfélagins. Bæjarstjóri upplýsti þá, að fyrir um þremur árum hafi verið unnið að gerð þarfagreiningar bæði fyrir bæjarskrifstofur og bókasafn. Þrjú ár eru langur tími á tímum hraðrar tækniþróunar og breyttra þarfa í rekstri skrifstofuhúsnæðis og bókasafna. Ekki síst þar sem Covid sýndi okkur að skrifstofustörf eru minna háð staðsetningu en nokkru sinni fyrr og að aukning á notkun rafbóka nam 50% og heldur sú aukning áfram. Það er hverjum manni ljóst að húsnæðisþarfir starfseminnar hafa gjörbreyst og því óábyrgt að ætla að styðjast við þarfagreiningar sem gerðar voru fyrir þremur árum. Tekið skal fram að hér er ég aðeins að benda á mikilvægi vandaðra vinnubragða en á engan hátt að gera lítið úr þörf fyrir góða aðstöðu fyrir starfsfólk og þróun á víðtækara hlutverki bókasafns. 

Við búum við erfitt efnahagsástand í landinu þar sem verðbólga er mikil og verðhækkanir koma illa við heimilin. Þessi staða kallar á enn dýpri rýni á hlutverk og verkefni sveitarfélagsins og að við veltum hverjum einasta steini í verkefnum og forgangsröðun þeirra, með tilliti til framtíðar áhrifa. Áherslan á að vera á lækkun gjalda og skatta á íbúana þegar hægt er, ekki illa ígrundaðar framkvæmdir sem enda á að kosta allt of mikið. Við sem erum kjörnir fulltrúar og stjórnendur sveitarfélagsins erum að fara með fé íbúa og megum aldrei hlífa okkur við kröfunni um vönduð vinnubrögð.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólahátíðar,

Helga Jóhanna Oddsdóttir,
bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.