Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Erlend mál og tengsl við útlönd
Fimmtudagur 3. nóvember 2022 kl. 13:05

Erlend mál og tengsl við útlönd

41. þáttur

Erlend tungumál eru lykill að samskiptum fólks milli landa. Með bættum samgöngum og fjarskiptum verður æ mikilvægara að sem flestir læri erlend mál og kynnist um leið erlendum siðum og menningu.
Þegar skóli var stofnaður á Vatnsleysuströnd voru Íslendingar enn í mestum samskiptum við Danmörku og danskan afar mikilvæg en vægi ensku jókst með með auknum samskiptum við Bretland og með flótta margra Íslendinga til Ameríku um það leyti. Auk þess varð enskan æ meira að heimsmáli. 

Danska og enska urðu hluti af almenningsfræðslu á Íslandi með stofnun unglingaskóla upp úr 1930 en þó ekki skyldunámsgreinar fyrr en líða tók á 20. öld og þjóðin hafði öðlast fullt sjálfstæði.

Public deli
Public deli

Eins og segir í síðasta þætti var tungumálanám við upphaf okkar skóla ekki fyrir öll börn en veita mátti fermdum unglingum „sérstaka kennslu“,  þar á meðal dönsku og ensku. Veturinn 1903–1904 var danska námsgrein í eldri deild og hugsanlega oftar þó ekki séu um það heimildir. Erlend mál voru ekki til fullnaðarprófs í okkar skóla 1914–1932, árin sem prófabók skólans nær til.

Á fjórða áratugnum voru víða komnir upp héraðsskólar og nám fyrir unglinga. Þá gekkst ungmennafélagið Þróttur í fáein ár fyrir nokkurra vikna námskeiði fyrir unglinga í nýbyggðu samkomuhúsinu Kirkjuhvoli og var þar kennd danska og jafnvel enska. Svo virðast þessi tungumál ekki hafi verið kennd í Brunnastaðaskóla þar til 1. og 2. bekkur miðskóla koma þar til sögunnar 1961.

Löngu síðar er einnig farið að kenna þessi tungumál yngri börnum. Lengst af byrjaði dönskukennslan u.þ.b. tveimur árum fyrr en enskan. Það breyttist svo upp úr aldamótunum 2000 þegar farið var að kenna ensku strax í 1. bekk, fyrst í tilraunaskyni, en danskan byrjaði eftir sem áður í 5. bekk.

Vorið 1994 fóru kennarar skólans í kynnisferð til Danmerkur, segir nánar frá því síðar. Í skólaráði 12. mars 1997 lagði Helgi Hólm kennari til að heimilað yrði að 9. bekkur efndi til samskipta við danskan skóla með gagnkvæm nemendaskipti í huga en fyrir lægi munnlegt samþykki nemenda og flestra foreldra. Haldinn var danskur dagur 28. maí það vor fyrir 7. bekki á Suðurnesjum.

Halla Jóna Guðmundsdóttir og Inger Christensen fóru með nokkra nemendur úr 5.–7. bekk í vikuferð til Danmerkur vorið 1999. Foreldrar reyndust duglegir að safna fyrir ferðinni og Snæbjörn skólastjóri greiddi götu þeirra. Nemendur gistu á dönskum heimilum og sóttu danskan skóla þar sem Halla þekkti kennara og skrifuðu dagbók á dönsku. Dönsku nemendurnir skrifuðu, undir leiðsögn kennara sinna, bók á ensku um Ísland og náttúru þess, sem kom sér vel þegar þau komu í heimsókn árið eftir. Þau gistu á heimilum og fóru ásamt íslenskum nemendum í þriggja daga ferð um Suðurland og gróðursettu trjáplöntur á Ströndinni. Halla telur að þetta verkefni hafi aukið áhuga barnanna á dönsku og að þetta sé heppilegri aldur heldur en 10. bekkur, sem er að yfirgefa skólann.

Stundum á síðari árum hefur verið boðið upp á fleiri erlend mál sem valgrein í efstu bekkjum, ýmist frönsku, þýsku eða spænsku. Heimild er um þýsku sem valgrein árið 1985.

Skólinn hefur tekið þátt í Esasmus+ og eTwinning verkefnum Evrópusambandsins í meira en áratug. Marc Portal kennari er þar frumkvöðull en annar kennari, Hannes Birgir Hjálmarsson, kom þar fljótlega með. Skólastjórnendur hafa stutt verkefnið frá upphafi. Kennurum gefst þarna tækifæri til að sækja nám og samstarfsfundi erlendis, að mestu kostað af menntasjóðum Evrópusambandsins. Covid setti strik í reikninginn en nú er allt komið á fulla ferð.

Í Erasmus+ vinna skólar og nemendur í ólíkum löndum saman að námsverkefnum, oft eru einnig gagnkvæmar heimsóknir. Fyrir ári síðan náði Stóru-Vogaskóli þar inngildingu (accreditation) með vinnu nemenda og kennara og getur þar með án flókinna umsókna sent kennara í samtals tíu ferðir á ári og u.þ.b. tuttugu nemendur í eina ferð árlega í sex ár. Veturinn 2020–2021 unnu nemendur í 10. bekk verkefni á netinu með skóla í Frakklandi og öðrum á Ítalíu. Þeir unnu að gerð myndasögu á netinu um sögu Jules Verne um ferðina að miðju jarðar. Þeirri vinnu lauk með gagnkvæmum heimsóknum. Nemendur fóru í fylgd kennara til þessara landa þar sem gist var á heimilum nemenda. Meðfylgjand mynd er tekin í Pornic í Frakklandi.

Á þessu skólaári vinnur 10. bekkur með frönskum og ítölskum bekk að umhverfisborðspili sem hópurinn hannar, semur og prufukeyrir og lýkur með gagnkvæmum heimsóknum næsta vor. Þarna læra nemendur tungumál, landa-, umhverfis- og samfélagsfræði og kynnast lífi fólks í fjarlægum löndum. Öll samkiptin eru á ensku og eru allir með ensku sem annað mál. 

eTwinning er skólasamfélag á netinu þar sem hægt er að komast í samband við evrópska kennara og skólafólk, taka þátt í einföldum samstarfsverkefnum og sækja sér endurmenntun á vinnustofum og námskeiðum á netinu. Guðrún Kristín Ragnarsdóttir, náttúrufræðikennari, er nú með 5. bekk í eTwinning-verkefni þar sem nemendur skóla frá öðrum löndum læra um eldfjöll og líf fólks í eldfjallandi, bæði á Íslandi og á eyjunni Reunion í Indlandshafi. Eldfjallaeyja þessi tilheyrir Frakklandi, Hún er innan við 1% af stærð Íslands en þar búa þó hátt í milljón manns.

Heimildir m.a.: Reglugerðin frá 1872.  Gjörðabók skólanefndar.  Prófabók fyrir Suðurkotsbarnaskóla 1914–1932. Upplýsingar á netinu um Erasmus+, accreditation, eTwinning, eyjuna Reunion o.fl.  Almenningsfræðslsa á Íslandi. Viðtöl við Höllu Jónu, Marc Portal, Hannes Hjálmarsson, Jóhann Sævar, Helga Guðmundsson o.fl.