Aðsent

Er virkilega til of mikils mælst?
Mánudagur 20. september 2021 kl. 11:27

Er virkilega til of mikils mælst?

Það virðist ætíð vera viðkvæðið að ekki séu nægir fjármunir til að rétta efnahag þeirra sem hvað lökustu kjörin hafa í okkar vellauðuga landi þar sem stjórnvöld státa sig samt af heimins mestu velferð. Sumir efast um að þetta misrétti  verði nokkru sinni lagfært. Jafnvel hið svokallaða góðæri síðustu ára virðist bara vera fyrir hluta þjóðarinnar, hina útvöldu! Ég vil minna á að kjörnir fulltrúar eiga að vinna þjóðinni allri til gagns, ekki bara hluta hennar.

Fjármálaráðherra talar um að jöfnuður hafi aldrei verið jafn mikill og nú og aldrei hafi verið eins mikið gert fyrir þessa þjóðfélagshópa. Þetta er ótrúlegt sjónarspil með tölur enda blasir allur annar veruleiki við því fólki sem varla á til hnífs og skeiðar út mánuðinn.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Við hljótum öll að sjá að ekki er hægt að lifa á 256.500 krónum sem eru 221.000 kr. eftir skatt. Um það þarf varla að ræða, hvað sem meðaltöl í tölvukerfum segja. 

Við krefjumst réttlætis fyrir alla í ríku landi!

Ójöfnuður er staðreynd hér á landi. Aldraðir,öryrkjar og fólk í láglaunastörfum eiga ekki að vera afgangsstærð í þjóðfélaginu. Þetta eru einstaklingar sem eiga að njóta þeirrar virðingar að fá að lifa mannsæmandi lífi og njóta einhvers af því sem lífið hefur upp á að bjóða, a.m.k. þannig að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af næstu máltíðum er líða tekur á mánuðinn.

Er virkilega til of mikils mælst?

Því miður virðist það vera viðtekin venja að þessum þjóðfélagshópum skuli úthlutað eins naumt og hægt er á meðan þeir sem eru á jötu ríkisins sleikja út um í bæði munnvikin með bólgin launaumslögin og sjálfkrafa hækkanir með vissu millibili án þess að það þyki tiltökumál. Stóra spurningin sem kjósendur þurfa að spyrja sig er hvort við ætlum að viðhalda slíku þjóðfélagi eða brjóta múrana og bæta kjörin í krafti samtakamáttar okkar.

Látum ekki glepjast eina ferðina enn!

Fólkið fyrst, svo allt hitt

Flokkur fólksins er ekki með loforðaflaum í aðdraganda kosninga en heldur ótrauður áfram með sín baráttumál um að jafnara verði gefið af þjóðarkökunni og að raddir allra fái hljómgrunn á Alþingi.

Flokkurinn hefur barist kröftuglega og látið hátt í sér heyra um ýmis réttlætismál fyrir hönd þeirra sem höllustum fæti standa og vissulega hefur verið við ofurefli að tefla.

Sú barátta bar árangur þegar samþykkt var á síðustu dögum þingsins að stofna embætti hagsmunafulltrúa aldraðra og að blindum og sjónskertum stæði til boða leiðsöguhundar þeim að kostnaðarlausu. Einnig hefur flokkurinn lagt fram tugi þingmála og er það vel með aðeins tvo þingmenn innanborðs.

Kjósandi góður!

Ef þú vilt sjá réttlátara samfélag þar sem allir getað tekið þátt en ekki setið á hliðarlínunni, þá er það í þínum höndum að knýja fram um breytingar sem svo margir kalla eftir.

Opnum augun og setjum x við Flokk fólksins sem hefur að leiðarljósi fólkið fyrst, svo allt hitt.

Sigrún Berglind Grétarsdóttir

Höfundur skipar 4. sætið á framboðslista Flokks fólksins í Suðurkjördæmi