Aðsent

Aðventuhugleiðingar
Mánudagur 23. desember 2019 kl. 07:08

Aðventuhugleiðingar

Nú er aðventan gengin í garð, jólaljós og kransar komin í flesta glugga og jólasöngvar óma á öldum hljóðvakanna. Eftirvænting og gleði skín úr augum og andlitum barnanna sem bíða eftir jólunum. Hinir fullorðnu eru á fullu við þrif, bakstur og skreytingar svo helgihaldið megi verða sem hátíðlegast.

Þótt desember sé annasamur mánuður, þar sem allir eru að reyna að leggja sig fram við að gera umhverfið sem notalegast fyrir sig og sína, skulum við jafnframt hafa hugfast að margir eiga líka um sárt að binda í jólamánuðinum. Sorgin knýr víða dyra. Þeir sem missa ástvin eða ganga gegnum sorgarferli upplifa ekki þá sömu gleði og tilhlökkun á aðventunni sem flestir fá notið. Fyrir þá er tíminn erfiður og vanlíðan í sumum tilfellum ein sterkasta tilfinningin þótt flestir reyni að bera sig vel og ekki á borð fyrir aðra. Gagnvart einstaklingum í sorg skipta samskipti, ræktarsemi og tillitsemi afar miklu máli, einnig hvernig við orðum hlutina og komum fram hvert við annað í daglegum samskiptum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Um þessar mundir verður mér jafnframt hugsað til  þeirra sem minna hafa á milli handanna til að standa straum af öllum þeim kostnaði sem fylgir innkaupum fyrir jólin. Við þurfum að sýna hvert öðru nærgætni og vinarþel í verki á þessum tíma. Falleg orð, hlýtt faðmlag eða einlægt bros getur skipt öllu máli fyrir þá sem eiga um sárt að binda. Höfum einnig í huga að aðgát skal höfð í nærveru sálar og eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Þessi orð eiga alltaf við á öllum tíma ársins. Mikilvægast er að njóta samvistanna með hvert öðru, vera til staðar hér og nú, lifa og njóta hvort sem er í vinnu eða með fjölskyldu og vinum. Gleðilega hátíð.

Þuríður I. Elísdóttir,
forstöðumaður
Hrafnistu­heimilanna
í Reykjanesbæ