Aðsent

Að útvíkka sjóndeildarhringinn og sjá það góða í skólastarfi okkar
Sunnudagur 7. apríl 2024 kl. 06:02

Að útvíkka sjóndeildarhringinn og sjá það góða í skólastarfi okkar

Það eru ótrúleg forréttindi fólgin í því að starfa í skólakerfinu okkar. Þar fáum við tækifæri til að hafa áhrif á hvern og einn nemanda og um leið að aðstoða þá við að blómstra hver á sinn hátt. Skólafólk velur sér starf út frá ástríðu, út frá því að vilja aðstoða og vera til staðar fyrir yndislegu litlu einstaklingana sem eru að feta sín fyrstu skref í átt að framtíðinni.

Skólakerfið hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár og áratugi en það þarf hugrekki skólafólks til að feta nýjar slóðir með áherslu á börnin og fjölbreyttar þarfir þeirra.  Mikilvægt er að kennarar velti fyrir sér spurningum eins og af hverju kenni ég á þennan hátt, af hverju vel ég þessa leið, af hverju vel ég þetta námsefni o.s.frv. Við þurfum að vera dugleg að rýna í og ígrunda þær leiðir sem við veljum með barnið í forgrunni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Skoðað skólakerfi í þremur mismunandi löndum

Undanfarna mánuði hef ég fengið tækifæri til að skoða skólakerfi í þremur mismunandi löndum; Litháen, Skotlandi og Finnlandi. Að fá að fylgjast með kennslu, áskorunum kennarana og að eiga samtal við þá og skólastjórnendur var mjög lærdómsríkt. Við vitum að í skólum geta ríkt ólíkar áherslur og einkenni enda mismunandi skólamenning, mismunandi umhverfi sem skólar starfa í og aðrir þættir sem hafa áhrif. 

Við í Stapaskóla erum þátttakendur í Nordplus verkefni þetta skólaár með Karalienés Mortos í Vilnius og Kaunas. Verkefnið gengur út á það að læra af hvert öðru. Kennarateymi ferðast á milli landa og eru að fylgjast með kennslu í þrjá til fjóra daga og fá fræðslu og kynningar bæði frá nemendum og kennurum um helstu einkenni og áherslur skólanna. Við höfum öðlast mikla og dýrmæta reynslu á þessu tímabili. Við höfum séð ýmislegt sem við getum gert betur og öðruvísi og einnig margt sem minnir okkur á að við erum að gera vel. Við tókum með okkur hluti eins og að bæta skriftarkennsluna okkar, að nýta tuskudýr til að hjálpa nemendum að vinna úr tilfinningum sínum, að vera með stundaskrár og myndir af kennurum fyrir utan allar tvenndir og að vera með meira af efni á veggjum skólans til að minna nemendur á hvað þarf til að vera góður nemandi, að sýna seiglu, að vita að hvaða marki er stefnt og hvað það er sem viðkomandi þarf að gera til að ná þangað. Það ríkir mikill agi og krafa um árangur í samstarfsskólunum okkar í Vilnius og Kaunas og það sést vel í gegnum allt starfið. Hlutverk foreldra skiptir miklu máli þar og sjá má að skólafólkinu er treyst vel fyrir því starfi sem á sér stað innan veggja skólans og mikil virðing er borin fyrir starfinu. Virðingin kemur að heiman, það er ekki kennt! Við sáum að við á Íslandi leggjum upp úr sköpun og námi í list- og verkgreinum. Við erum að finna leiðir til að öll börn fái tækifæri til að blómstra og við hjálpum þeim að finna styrkleika sína í gegnum fjölbreytt skólastarf. Við finnum líka hvað okkur finnst mikilvægt að heyra og sjá samvinnu nemenda á milli. Að þeir hjálpist að, finni leiðir saman án þess að kennari sé alltaf í aðalhlutverki. Að geta unnið í teymi og samstarfi er mikilvæg hæfni fyrir ungmennin okkar að taka með sér út í lífið. Að kunna á sína styrkleika og veikleika, að geta unnið með öðrum, að leita lausna saman og að allir hafi jöfn tækifæri. Þetta eru okkar styrkleikar og við megum alls ekki gera lítið úr þeim!

Virðing og væntumþykja fyrir hvert öðru

Í Skotlandi var ferðinni heitið til Glasgow til að skoða hvernig Skotar vinna að bættri vellíðan barna. Þeir hafa unnið með kerfi sem kallast Nurture í um 20 ár. Ég fékk tækifæri til að skoða þrjá mismunandi skóla í þremur mismunandi skólahverfum, vítt og breytt um Glasgow. Það sem ég sá og tók virkilega eftir var þessi virðing og væntumþykja fyrir hvert öðru. Nurture er verkefni sem miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) er að leggja af stað með undir handleiðslu frá Bergdísi Wilson, teymisstjóra hjá MMS. Í Stapaskóla hefur allt starfsfólk á grunnskólastigi farið á námskeið, ásamt því að innleiðingarteymi hélt af stað undir handleiðslu Nurture International og Bergdísar. Við erum að læra enn frekar um taugafræðilegar ástæður hegðunar, hvað erum við að gera til að bregðast við og hvað getum við gert til að auka enn frekar vellíðan nemenda okkar. Við erum uppbyggingarskóli og beitum aðferðum Uppeldi til ábyrgðar í öllu starfi og tala þessar tvær leiðir mjög vel saman. Innleiðingarteymi skólans fundar á tveggja vikna fresti og rýnir í það sem verið er að gera og hvað gera má betur eða öðruvísi. Við vinnum með og reynum að stuðla að auknu tilfinningalegu öryggi. Það hefur lengi verið ákall hjá kennurum landsins að fá verkfæri inn í skólastofuna og þekkingu til að takast á við hegðun og líðan nemenda. Með þessu verkefni teljum við okkur vera að fá það. Innleiðing tekur tíma og höfum við gert samning við Nurture International um átján mánaða innleiðingarferli. Að fá utanaðkomandi sérfræðinga er mikilvægt og gerir okkur kleift að efla okkur enn frekar sem fagfólk.

Kynnti kennsluhætti Stapaskóla í Finnlandi

Í mars fékk ég tækifæri til að heimsækja þrjá skóla í Borgá, sem er um 25 mínútur frá Helsinki. Í bænum búa um 50 þúsund manns og eru þar níu sænskumælandi skólar og fjórtán finnskumælandi skólar. Ég varði heilum degi í dásamlegum skóla í útjaðri bæjarins sem heitir Sannás skóli og er sænskumælandi. Þau hafa farið leiðir eins og við í Stapaskóla að kenna mikið af námsefni og aðalnámskrá í gegnum þemanám og samþættingu námsgreina. Það var virkilega gaman að sjá og fylgjast með skólastarfi þeirra og að fá tækifæri til að spjalla við nemendur og starfsfólk gaf mér frekari mynd af því sem Finnar eru að gera og takast á við.

Tilgangur ferðarinnar var að hitta skólastjóra allra sænskumælandi skólanna og yfirmann þeirra til að kynna kennsluhætti Stapaskóla og þær leiðir sem við höfum farið. Að „kveikja neista“ og hvetja skólastjórnendur til að vera hugrakka, að prófa og að það sé allt í lagi að mistakast því í ferlinu fer alltaf fram lærdómur sem nýtist inn í skólastarfið. 

Þegar ég horfi á lærdómsferil mitt í þessum þremur löndum og set augun á skólann okkar, Stapaskóla, þá sé ég að við höfum skapað umhverfi með þarfir barnanna að leiðarljósi. Að við höfum þróað og skapað ótrúlega öflugt skólastarf á stuttum tíma.  En við höfum líka misstigið okkur, prófað leiðir sem hafa mistekist og unnið saman að því að finna nýjar leiðir sem henta betur og eru góðar. Að móta nýjan skóla er ærið verkefni og tekur mörg ár að innleiða og festa í sessi þá skólamenningu og það skólastarf sem Stapaskóli á að standa fyrir. Með ótrúlegum mannauði hefur okkur tekist að gera magnaða hluti og eru það forréttindi að fá að vera þátttakandi í þeirri vegferð.

Öll að fást við sömu hluti

Í samtölum við skólafólkið í þessum þremur löndum kemur í ljós að við erum öll að fást við sömu hluti, hvernig við vinnum með þrautseigju nemenda, hvernig við sköpum aðstæður sem henta okkar nemendum, hvernig þeim líður, hvað við þurfum að gera öðruvísi o.s.frv. Það sem mér finnst einstaklega áberandi er þessi virðing fyrir skólafólki og það er held ég eitthvað sem við Íslendingar getum tekið til okkar. Hvernig er talað heima við matarborðið um skóla barnanna, hvernig er talað um kennarana út í búð? Treystum fagfólkinu til að vita hvað það er að gera, treystum því að menntun þess og áherslur gefa ykkar barni óteljandi tækifæri til að blómstra og auka við þekkingu sína. Tölum skólana okkar upp og verum þakklát fyrir að búa á þessu yndislega landi okkar, Íslandi. Náttúran, landið, krafturinn og fólkið!

Að útvíkka sjóndeildarhringinn er mikilvægt til að minna sig á hvað við höfum það gott hér. Að sjá leiðir sem við getum nýtt til breytinga hjá okkur en einnig til að sjá hvað það er margt gott í okkar skólakerfi. Lærum af hvert öðru, tökum það góða og höldum áfram á ferðalaginu þar sem hver og einn einstaklingur gengur út úr skólanum sínum við útskrift með höfuð hátt og drauma um að geta allt sem hann ætlar sér með ferðatöskuna stútfulla af alls konar!

Gróa Axelsdóttir, skólastjóri Stapaskóla.