Viðskipti

Kristbjörg Edda nýr forstjóri Kaffitárs
Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir var áður stjórnarformaður Kaffitárs en hefur nú tekið við stöðu framkvæmdastjóra.
Föstudagur 19. ágúst 2016 kl. 15:50

Kristbjörg Edda nýr forstjóri Kaffitárs

Kristbjörg Edda Jóhannsdóttir hefur tekið við stöðu forstjóra Kaffitárs af Aðalheiði Héðinsdóttur sem hefur sest í stól stjórnarformanns. Aðalheiður hefur verið framkvæmdastjóri Kaffitárs frá stofnun árið 1990. Þær stöllur hafa stólaskipti, því Kristbjörg fór áður fyrir stjórn félagsins.

„Það er komið að því að ég láti daglegan rekstur frá mér og einbeiti mér af meiri krafti að kaffimenningunni sjálfri og þróun hennar. Kaffidrykkja hefur breyst gríðarlega frá því að Kaffitár var kynnt til leiks. Fyrirtækið hefur þróast í samræmi það,“ segir Aðalheiður en Kaffitár opnar innan skamms sitt annað bakarí og kaffihús undir nafninu Kruðerí Kaffitárs á Stórhöfða.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Kristbjörg Edda hefur síðastliðin tvö ár starfað sem forstjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Men and Mice ehf. Áður var hún forstöðumaður markaðssviðs Símans. Hún starfaði hjá Össuri í ellefu ár og gegndi þar ýmsum stjórnunarstörfum. Hún var meðal annars framkvæmdastjóri markaðssviðs fyrir Evrópu og framkvæmdastjóri vörustjórnunar. Þá hefur Kristbjörg Edda einnig sinnt ráðgjöf og kennslu á sviði vörustjórnunar og nýsköpunar. Á starfsferli sínum hefur hún einnig búið í Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum.
 
Kristbjörg kveðst þekkja Kaffitár vel og vita hvers það er megnugt. „Þar liggja mikil tækifæri á sístækkandi innlendum markaði og ég hlakka til að fá að takast á við daglegan rekstur félagsins, kynningarmálin og sjá félagið njóta enn frekar afrakstur frábærrar frumkvöðlastarfsemi Aðalheiðar,“ segir Kristbjörg Edda sem er með meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskólanum í Árósum og Háskóla Íslands. Hún er einnig með BA-gráðu í hagfræði og mannfræði frá Háskóla Íslands.
 
Kaffitár rekur sjö kaffihús á höfuðborgarsvæðinu og í Reykjanesbæ og bakaríið Kruðerí Kaffitárs í Kópavogi.