Hlaðvarp // Baldur Guðmundsson
„Það eru kannski einhverjir eftir. Það eru margir sem eru komnir með Súlu. Júlli bróðir er búinn að fá, Guðný mágkona, og Geimsteinn fékk sem fyrirtæki á sínum tíma. Svo á Björgvin sonur minn Súlu sem Paddy’s fékk á sínum tíma. Þannig að það eru nokkrar í fjölskyldunni,“ segir Baldur Þórir Guðmundsson þegar hann var spurður hvort hann væri síðastur í fjölskyldunni að fá Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar. Fjölskylda Baldurs hefur verið í framlínu tónlistar og menningar í Bítlabænum í áratugi og því hefur verið úr miklu að velja fyrir þá sem velja nýja Súluhafa á hverju ári. Nú var komið að eldri syni Rúnna Júll og Maríu Baldursdóttur og þegar hann tók við viðurkenningunni í Hljómahöll í nóvember, sagðist hann þurfa að þakka nokkrum sem hafa verið með honum á lífsleiðinni í tónlist og fjöri. „Ég finn að ég verð meirari með aldrinum og það er stundum stutt í tárin en vil nota tækifærið og þakka nokkrum fyrir samstarfið í gegnum tíðina,“ sagði Baldur sem settist niður með okkur í stúdíói Víkurfrétta. Við dúndruðum nokkrum spurningum á hann.






