Fréttir

WOW air eykur flugframboð sitt til Bandaríkjanna og Evrópu
Miðvikudagur 19. október 2016 kl. 09:35

WOW air eykur flugframboð sitt til Bandaríkjanna og Evrópu

WOW air mun frá mars á næsta ári auka til mikilla muna flugframboð sitt til helstu áfangastaða sinna. Flogið verður tvisvar á dag til Lundúna, Parísar og Amsterdam. Þá verður flogið daglega til San Francisco og Los Angeles en nú er flogið þangað fjórum til fimm sinnum í viku allan ársins hring.  

Þessi aukning er liður í því að bregðast við aukinni eftirspurn eftir flugi á góðum kjörum á milli Evrópu og Bandaríkjanna en WOW air hefur flutt um 1,17 milljón farþega það sem af er árinu, segir í tilkynningu frá félaginu.

„Sala beggja vegna Atlantshafsins sem og á Íslandi hefur gengið afar vel og því ákváðum við að auka framboðið og fljúga daglega og í mörgum tilfellum tvisvar á dag, allan ársins hring á okkar helstu áfangastaði. Við erum stolt af þessum árangri og að því hafa lækkað flugverð til muna á alþjóðavísu og um leið eflt heilbrigða samkeppni í flugi,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air.  

WOW air mun á næsta ári fljúga til yfir þrjátíu áfangastaða bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Á þessu ári bættust sex nýir áfangastaðir við ört vaxandi leiðarkerfi WOW air og er flogið til þeirra allan ársins hring en félagið hóf flug til Edinborgar, Bristol, Frankfurt, Stokkhólms, Los Angeles og San Francisco. Í nóvember mun New York bætast í hópinn og næsta vor hefst flug til Miami.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024