Fréttir

Varasalvi Bláa Lónsins til styrktar Bleiku slaufunni
Mánudagur 1. október 2018 kl. 10:48

Varasalvi Bláa Lónsins til styrktar Bleiku slaufunni

Í tilefni af Bleiku slaufunni, átaksverkefni Krabbameinsfélagsins, sem hefst núna í október mun 20% af söluandvirði varasalva Bláa Lónsins renna til Krabbameinsfélagsins.
 
Varasalvinn er ein vinsælasta vara Bláa Lónsins og í tilefni af Bleiku slaufunni verður hann seldur í bleikum pakkningum. Bláa Lónið hefur klætt sérvaldar vörur sínar í bleikan búning síðan 2015 til styrktar verkefninu.
 
Líkt og síðustu ellefu ár tileinkar Krabbameinsfélag Íslands októbermánuð baráttu gegn krabbameini hjá konum. Söfnunarfé Bleiku slaufunnar í ár verður varið til þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir, með sérstakri áherslu á krabbamein hjá konum og hvatningu um að mæta í skimun fyrir brjósta- og leghálskrabbameinum.
 
Í Bleiku slaufunni í ár leggur Krabbameinsfélagið upp með að taka höndum saman við vinnustaði, saumaklúbba og aðra vinahópa sem hafa sýnt sig að vera dýrmætur stuðningur við þá félaga sem veikjast af krabbameini og fá þá til að taka í sameiningu ábyrgð á því að „konurnar þeirra“ nýti tækifæri til reglubundinnar skimunar.
 
Konur er hvattar til að fara í skoðun í Leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð 8 í Reykjavík. Skimað er fyrir leghálskrabbameini hjá konum á aldrinum 23-65 ára á þriggja ára fresti og  fyrir krabbameini í brjóstum hjá konum á aldrinum 40-69 ára, á tveggja ára fresti. Með leghálsskimun er hægt að draga verulega úr fjölda krabbameina í leghálsi og það eykur batalíkur verulega að greina brjóstakrabbamein á byrjunarstigi. Heimsóknin tekur að jafnaði ekki lengri tíma en 10-15 mínútur í heildina.
 
Varasalvi Bláa Lónsins er seldur í verslunum fyrirtækisins í Svartsengi, við Laugaveg 15, Hreyfingu Glæsibæ, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í vefverslun www.bluelagoon.is.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024