Fréttir

Sundkútar teknir úr notkun í Vatnaveröld
Mánudagur 17. júlí 2017 kl. 11:48

Sundkútar teknir úr notkun í Vatnaveröld

Vatnaveröld í Reykjanesbæ hefur tekið úr notkun sundkúta sem Orka náttúrunnar (ON) gaf sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum á dögunum. Ákvörðunin var tekin af ON í kjölfar ábendingar sem fyrirtækinu barst í morgun um að kútur hefði rifnað við notkun.
 
Sundkútarnir eru frá framleiðanda sem áður hefur framleitt kúta fyrir íslenskan markað. Þeir eru með CE-merkingu, en hún er til marks um að framleiðandinn ábyrgist að varan uppfylli grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði sem kveðið er á um í tilskipunum Evrópusambandsins.
 
ON hafði þegar hafið könnun á öryggi kútanna í kjölfar fyrirspurnar Neytendastofu fyrir um hálfum mánuði síðan, en borist höfðu ábendingar um rifna kúta á sundstöðum. Könnun ON á meðal sundlaugarstarfsmanna leiddi í ljós að á sundstöðum var almenn ánægja með kútana og skemmdir sem vart hafði orðið voru raktar til slæmrar meðferðar á kútunum.
 
Samkvæmt starfsfólki sundlauga hafi borið á því að  gestir sundstaða hafi rifið kútana í sundur til þess að nota þá sem höfuðhvílur, annað hvort á sundlaugarbarmi eða í sólbaði. ON hóf þegar í stað að láta útbúa sérstakar höfuðhvílur og notkunarleiðbeiningar með kútunum.
 
Þegar ábending barst í dag um að kútur hefði rifnað í notkun var hins vegar tekin ákvörðun um að taka kútana þegar í stað úr umferð og strax haft samband við alla sundstaði sem fengið höfðu kúta.
 
Um er að ræða öryggisaðgerð og verða umræddir kútar því ekki settir aftur í umferð. Þetta er gert í samstarfi við sundstaðina sem um ræðir. ON vill hafa vaðið fyrir neðan sig þegar kemur að öryggismálum og verður því framleiðsluferlið allt skoðað, í náinni samvinnu við alla sem að málinu koma, segir á heimasíðu ON.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024