Óeðlilegt álag og kulnun hjá kennurum

Óeðlilegt álag er á kennurum á Suðurnesjum og kemur það mikið niður á þeim. Margir kennarar eru að gefast upp á því álagi. Einhver dæmi eru um kulnun í starfi hjá kennurum, segir í bókun Skúla Sigurðssonar, fulltrúa grunnskólakennara, á fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar, í morgun.
 
Bókunin var lögð fram undir umræðu um starfsáætlun fræðslusviðs 2019 þar sem Helgi Arnarson sviðsstjóri fræðslusviðs kynnti drög að starfsáætlun ársins 2019.
 
„Við trúnaðarmenn á Suðurnesjum viljum vekja athygli á því ástandi sem ríkir í grunnskólum á svæðinu. Eftir að hafa verið á fundi og rætt málin þá er samróma ályktun okkar að óeðlilegt álag sé á kennurum og kemur það mikið niður á þeim. Margir kennarar eru að gefast upp á því álagi.
 
Nú í haust eru einhver dæmi um kulnun í starfi hjá kennurum þannig að fólk er komið í veikindafrí eða hreinlega er hætt að starfa í skólunum. Lítil úrræði á þeim málum sem koma upp í skólunum er stór þáttur í þessu ástandi.

Það er sveitarstjórnar að vinna í því að bæta ástandið í skólunum og hafa úrræði fyrir þá sem þurfa en ekki horfa framhjá vandamálinu og vona að það hverfi bara. Til framtíðar hljótum við öll sem samfélag að græða á því ef tekið er rétt á málunum í upphafi þannig að vandinn verði ekki stærri,“ segir Skúli Sigurðsson fulltrúi grunnskólakennara í bókuninni.