Fréttir

Mistök við söfnun á sýnum í Helguvík
Ljóst er að mistök voru gerð við söfnun sýna í Helguvík.
Fimmtudagur 30. mars 2017 kl. 14:30

Mistök við söfnun á sýnum í Helguvík

- Einnig grunur um mistök við greiningu sýna hjá sænskri rannsóknarstofu

Ljóst er að mistök voru gerð við söfnun sýna vegna mengunar frá kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Þetta staðfestir teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun. Grunur leikur á að einnig hafi verið gerð mistök við útreikninga á niðurstöðum mælinga á sýnum hjá sænsku rannsóknarstofunni ALS. 

Greint var frá því á dögunum að styrkur arsens í andrúmslofti í nágrenni við Helguvík væri töluvert hærri en gert var ráð fyrir í umhverfismati. Niðurstöður mælinga sýndu að styrkur arsens í lok árs var yfir umhverfismörkum sé miðað við heilt ár. Nú er uppi óvissa um það hvort þær mælingar hafi verið réttar. Orkurannsóknir Keilis, sem sjá um söfnun sýna í Helguvík, tilkynntu Umhverfisstofnun með bréfi í dag að endurskoða þurfi allar niðurstöður rykmælinga frá árinu 2016. Í bréfinu er fullyrt að þær háu tölur sem mældar hafi verið séu úr öllu samhengi við raunverulega losun frá fyrirtækinu. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ryksýnum er safnað á síur í mælistöð Orkurannsókna við Hólmbergsbraut og þau svo send til Svíþjóðar í efnagreiningu. Að sögn Þorsteins Jóhannssonar, teymisstjóra hjá Umhverfisstofnun, voru gerð mistök hér innanlands því að ekki var tekin svokölluð „núllsía“, það er ónotuð sía úr sama pakka og hinar síurnar sem notaðar voru. „Það er ónotuð sía sem þarf líka að fylgja með til Svíþjóðar. Það gætu alltaf verið einhver efni í síunum áður en þær eru notaðar og því mikilvægt að senda líka ónotaða síu. Við vitum þó ekki hversu miklu getur munað en það gæti verið allt að eitt nanógramm,“ segir Þorsteinn.

Grunur leikur á að einnig hafi verið gerð mistök hjá sænsku rannsóknarstofunni ALS sem efnagreinir sýnin. Þorsteinn segir að gróflega fimmföld aukning hafi verið á öllum efnum í lok árs en að eðlilegra hefði verið að aukningin hefði verið mis mikil á milli efna. Þetta sé þó villa sem erfitt geti verið að rekja. „Eins gætu hafa verið gerð mistök hjá rannsóknarstofunni við útreikninga. Rannsóknarstofan sænska er mjög virt og vottuð og því ætti að vera hægt að rekja þessi mistök hafi þau átt sér stað.“

Á vef Umhverfisstofnunar segir að vonast sé til þess að nánari skýringar liggi fyrir sem fyrst.