Fréttir

Listamannsleiðsögn á sunnudaginn í Duus Safnahúsum
Laugardagur 23. september 2017 kl. 08:00

Listamannsleiðsögn á sunnudaginn í Duus Safnahúsum

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson verður með leiðsögn um sýningu sína Horfur sunnudaginn 24. september næstkomandi kl. 15, en sýningin var opnuð á Ljósanótt í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsum. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Á þessari sýningu reynir (jaðarsettur) miðaldra kalmaður staðsettur í Höfnum, að útskýra fyrir sér ástand heimsins og hverjar horfunar séu. Í gegnum miðla myndlistarinnar þreifar hann á og gerir tilraun til að skilja og læra meira um þessa veröld sem við byggjum. Helgi Þorgils Friðjónsson skrifar í sýningarskrá og segir m.a.: „Þrátt fyrir fegurðina og drifkraftinn og framtíðarsýnina, jafn undarlegt og það virðist, er líka undirliggjandi ógn. Ekki á þessum stað sýnist mér, en í röngu samhengi, eins og sagan sýnir, geta jafnvel fegurstu hugmyndir orðið ógnvekjandi. Jafnvel frelsishugmyndir er hægt að steypa í sjálfhverft fast mót. Frelsi, jafnrétti og bræðralag, getur verið steypt í mót sérhópa. Þarna einhvers staðar er gegnumgangandi þráður í verkum Helga. Kyrrstaða milli ógnar, sögu og fegurðar.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Helgi er fæddur árið 1968 og eftir nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands stundaði hann nám við Kunstakademie Dusseldorf, AKI í Hollandi og San Francisco Art Institute. Hann hefur verið virkur í sýningarhaldi jafnt hér heima sem erlendis síðan á námsárunum og hefur sinnt ýmsum störfum tengdum myndlist.

Sýningin stendur til 5. nóvember og opið er alla daga frá kl. 12 til 17.