Fréttir

Lentu í hremmingum í Innri Njarðvík
Mynd: Ríkarður óskarsson
Mánudagur 5. mars 2018 kl. 11:02

Lentu í hremmingum í Innri Njarðvík

- Ísilagt vatn gaf sig


Ríkarður Óskarsson, íbúi í Innri Njarðvík og Labrador tíkin hans, Dimma voru í morgungöngu snemma sl. sunnudag. Dimma elti tóman vatnsbrúsa út á ísilagt vatn í Innri Njarðvík og þegar hún var komin út á ísinn, þá brotnaði hann undan henni um þrjátíu metra frá landi. Kalt var á sunnudagsmorguninn og Ríkarður gat ekki hugsað sér að horfa aðgerðarlaus á Dimmu og láta hana drukkna. Hann ákvað þá að flatmaga til hennar en ísinn hélt ekki og voru þau bæði farin að svamla í köldu vatninu.

Ríkarður náði að henda Dimmu upp á ísinn og reyndi síðan að hífa sjálfan sig upp. „Svo reyndi ég að hífa mig upp en það var ekki hægt, kraftgallinn svo þungur og ég að gefast upp. Þá fann ég að ég gat snert botninn og reyndi að brjóta mér leið en ísinn var þykkri þegar nær dró landi.“ segir Ríkarður á Facebook síðu Hundasamfélagsins. Ríkarður segir að hann hafi náð að snerta botninn og reyndi þá að brjóta sér leið en ísinn varð þykkari því nær landi sem hann fór. Hann öskraði á hjálp en fáir voru á ferli kl. 7 á sunnudagsmorgni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Þá bað ég Guð að gefa mér styrk til þess að hífa mig uppá ísinn, ég notaði síðustu kraftana til að krafla mig upp á brúnina og rúllaði mér svo í land. Dimma var ánægð að sjá mig og drifum okkur heim. Þarna var ég við það að gefast upp, en sem betur fer fór allt vel í þetta sinn.“ segir Ríkarður. Betur fór en á horfðist í þeirra tilviki og bendir Ríkarður fólki á það að fara varlega í færslunni sinni og segir síðan „Hvað gerir maður ekki fyrir hundinn sinn?“

Þessi mynd fylgdi með færslunni hjá Ríkarði á Hundasamfélaginu. Á henni má sjá hvar ísinn gaf sig.