Hafró leitar liðsinnis almennings

Hafrannsóknastofnunin birtir í dag tilkynningu á heimasíðu sinni þar sem óskað er eftir aðstoð almennings við að kortleggja útbreiðslu makríls við strendur landsins. Þar eru allir þeir sem veitt geta upplýsingar um makrílgöngur beðnir um að hafa samband við stofnunina.

„Í ár virðist makríll hafa gengið nokkuð snemma upp að landinu, en þó með töluvert öðru móti en síðustu ár. Svo virðist sem fyrstu göngurnar hafi farið sunnar en venjan hefur verið og varð þeirra fyrst vart djúpt suðvestur og vestur af landinu. Nú hefur makríls orðið vart víða við landið.

Til þess að fá sem gleggsta mynd af dreifingu makríls við landið óskar Hafrannsóknastofnunin eftir því að sjómenn og allir þeir sem upplýsingar geta veitt um makrílgöngur, þ.m.t. sjóstangaveiðimenn á grunnslóð hafi samband við stofnunina í síma 575-2000. Bent er einnig á vefsíðuna www.hafro.is (fyrirspurnir og ábendingar) þar sem hægt er að skrá skilaboð. Einnig er akkur í að fá fryst makrílsýni svo fylgjast megi með fæðu makríls við landið fram á haust. Sýni merkist Hafrannsóknastofnuninni, með upplýsingum um stað og dagsetningu," segir í tilkynningunni.