Guðrún Lovísa Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson heiðursborgarar

Sveitarfélagið Vogar ákvað fyrir nokkru að setja sér reglur um heiðursborgara, og voru þær síðan samþykktar í bæjarstjórn í febrúar 2016. Samkvæmt reglunum er heimilt að útnefna hvern þann íbúa, fyrrverandi sem núverandi, sem heiðursborgara. Við valiði skal m.a. hafa í huga að störf viðkomandi hafi haft veruleg jákvæð áhrif á samfélagið, störf og framgangna hafi verið til fyrirmyndar og til eftirbreyti og að viðkomandi hafi skapað jákvæða ímynd bæði innan sveitarfélagsins sem utan.

Bæjarstjórn ákvað á fundi sínum þann 29. maí 2017 að útnefna tvo heiðursborgara í sveitarfélaginu. Það eru þau Guðrún Lovísa Magnúsdóttir og Magnús Ágústsson. Þau eru bæði fædd árið 1922, og verða því 95 ára í ár. Þau eru jafnframt elstu íbúar sveitarfélagsins.

Guðrún Lovísa (sem oftast er kölluð Lúlla) hefur látið til sín taka í samfélaginu á margvíslegan hátt. Hún og eiginimaður hennar, Guðmundur Björgvin Jónsson, eignuðust 12 börn, sem öll komust á legg.  Afkomendur Lúllu er nú orðnir 126 talsins, margir þeirra búsettir í Vogunum.  Til margra ára hafa afkomendurnir safnast saman á heimili Lúllu á laugardagsmorgnum, þar sem stórfjölskyldan kemur saman hjá ættmóðurinni. Lúlla hefur haldið dagbók allt frá árinu 1959, og gerir enn. Þannig er til í handriti drög að endurminningum hennar, sem er ómetanleg heimild um líf fólksins í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Í viðurkenningarskjali bæjarstjórnar segir svo: Bæjarstjórn samþykkir að Guðrún Lovísa Magnúsdóttir verði kjörin heiðursborgari Sveitarfélagsins Voga fyrir framlag sitt til mannlífs og menningar í sveitarfélaginu.

Magnús lauk vélstjóraprófi árið 1944. Hann stundaði útgerð frá unga aldri, fyrst á árabátum úr Halakotsvör. Róið var til fiskjar í Garðssjó með eina 10 neta trossu. Upp úr 1940 var byggt frystihús í Vogum, og síðar fest kaup á mótorbátum. Síðar voru stærri skip keypt og útgerðarfélagið Valdimar stofnað. Útgerðin var alla tíð mikil lyftistöng í samfélaginu. Kona Magnúsar var Hallveig Árnadóttir, sonur þeirra er Árni Magnússon. Magnús lét til sín taka í félagsmálum í sveitarfélaginu, var m.a. í hreppsnefndinni í 28 ár samfleytt frá árinu 1965. Hann var jafnframt oddviti hreppsnefndar í 8 ár.  Í viðkurkenningarskjali bæjarstjórnar segir svo: Bæjarstjórn samþykkir að Magnús Ágústsson verði kjörinn heiðursborgari Sveitarfélagsins Voga fyrir framlag sitt til atvinnuuppbyggingar, þátttöku í sveitarstjórn sem og fyrir framlag sitt til mannlífs og menningar.