Fréttir

Bókagjöf til nemenda grunnskóla í sameinuðu sveitarfélagi
Miðvikudagur 26. september 2018 kl. 09:47

Bókagjöf til nemenda grunnskóla í sameinuðu sveitarfélagi

Hrafn A. Harðarson hefur sent Ferða-, safna- og menningarráði sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis erindi þar sem hann skýrir frá hugmynd sinni að nemendum í ákveðnum árgangi skólanna í sameinuðu sveitarfélagi verði gefnar bækur með þjóðsögum og sögnum úr Garði og Sandgerði, sem systir hans, Hildur Harðardóttir tók saman fyrir nokkrum árum.
 
Hildur Harðardóttir vill gefa þessar bækur og telur Hrafn að þær muni vekja áhuga hjá einhverjum barnanna og/eða foreldrum og systkinum þeirra á sögu og menningu Suðurnesja og örva lestrarfýsn og getu. Bókin heitir Sagnir úr Garði og Sandgerði, útg. 2008, prentuð í Stapaprenti, 120 bls. með teikningum eftir Helgu Harðardóttur.
 
Ferða-, safna- og menningarráð þakkar Hildi og Hrafni Harðarbörnum fyrir einstaka hugulsemi og stuðning við skólastarf og menningu í sameinuðu sveitarfélag sem fram kemur í erindi þeirra. Ráðið vísar málinu til fræðsluráðs og skólastjóra grunnskóla í sameinuðu sveitarfélagi.
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024