Fréttir

Bæjarstjóri skammar þingmenn
Fimmtudagur 14. febrúar 2019 kl. 15:00

Bæjarstjóri skammar þingmenn

„Getur verið að stjórnarþingmenn kjördæmisins viti uppá sig skömmina og vilji ekki þurfa að svara fyrir dapra frammistöðu?“

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Lögreglan, Fjölbrautaskólinn og fleiri stofnanir sitja ekki við sama borð og systurstofnanir þeirra annars staðar á landinu þegar t.d. mælikvarðinn „fjárveiting pr. íbúa“ er settur á myndina. Á meðan eru sveitarfélögin á fullu við að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að gera sitt besta í að mæta þessari fjölgun með fleiri skólum, leikskólum og starfsfólki,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar í pistli á Facebook í upphafi vikunnar. Þar skammar hann þingmenn og ráðherra vegna mikils ósamræmis í fjárveitingum ríkisins til stofnanna sinna eftir landsvæðum.

Kjartan segir að sveitarfélögin á Suðurnesjum hafi byggt málflutning sinn á úttekt sem gerð var af sérfræðingum. Þrátt fyrir að þingmenn, ráðherrar og ráðuneytisstjórar hafi tekið kynningunni vel hafi ekkert gerst til að laga þennan ójöfnuð.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bæjarstjórinn segir að í framhaldi af fréttum um að Reykjanesbær væri orðinn fjórða stærsta sveitarfélag landsins hafi hann skrifað öllum þingmönnum kjördæmisins tölvupóst í síðustu viku og sagt þeim frá viðtölum sínum við fjölmiðla vegna íbúafjölgunarinnar. Þar greindi Kjartan Már einnig frá því að fjárveitingar til Suðurnesja héldu engan veginn í þeirri miklu íbúafjölgun sem verið hefði.

„Er skemmst frá því að segja að aðeins einn stjórnarþingmaður og tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar svöruðu póstinum. Það finnst mér skrítið þegar póstur berst frá bæjaryfirvöldum langstærsta sveitarfélags kjördæmisins,“ segir Kjartan Már og kvartar síðan yfir því að enginn stjórnarþingmaður hafi bókað fund með bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ í kjördæmaviku sem nú stendur yfir. „Getur verið að stjórnarþingmenn kjördæmisins viti uppá sig skömmina og vilji ekki þurfa að svara fyrir dapra frammistöðu? Ef þið hittið þá, þá endilega spyrjið þá út í þessi mál.“