Fréttir

Atvinnuleysi á Reykjanesi ekki minna í rúman áratug
Gríðar mikill fjöldi starfa hefur orðið til í tengslum við ferðaþjónustuna og auknum fjölda ferðamanna. Vf-mynd/pket.
Fimmtudagur 28. júlí 2016 kl. 14:25

Atvinnuleysi á Reykjanesi ekki minna í rúman áratug

Atvinnuleysi á Reykjanesi mældist aðeins 1,7% í júní. Atvinnuleysi á svæðinu ekki mælst jafn lágt í um áratug. „Íbúafjölgun á Reykjanesi einna örust á landinu,“ segir formaður Atvinnuþróunarfélags Reykjanes.

Atvinnuleysi á Reykjanesi mældist 1,7% í júní samkvæmt bráðabirgðatölum Vinnumálastofnunar. Atvinnuleysi á svæðinu hefur ekki mælst jafn lítið í áratug og er með því lægsta sem á landinu öllu. Samkvæmt Vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands, sem birt var gær, er atvinnuleysi á landinu öllu 2,3%.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Atvinnuleysi á Reykjanesi var um langt skeið það hæsta á landinu og var þegar mest lét um 14% árið 2011. Segja má að íbúar á svæðinu hafi gengið í gegnum tvö efnahagshrun, fyrst þegar herinn fór árið 2006 og svo þegar sjálft efnahagshrunið reið yfir. Gríðarlegur viðsnúningur hefur orðið á Reykjanesi síðan og mælist atvinnuleysi nú, sem fyrr segir, aðeins 1,7%.

„Það er gott að segja frá því að það hefur orðið alger viðsnúningur hvað atvinnuástand varðar á Reykjanesi. Um tíma var atvinnuleysi mest á landinu en nú er það vart mælanlegt. Það er mikill og ör vöxtur í ferðaþjónustu, sjávarútvegur stendur styrkum fótum og ýmsir frumkvöðlar hafa komið fram með ný verkefni,“ segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Grindavík og formaður Atvinnuþróunarfélags Reykjanes. „Íbúafjölgun á Reykjanesi er einna örust á landinu, enda bjóðum við upp á góða þjónustu og fjölbreytta búsetukosti í sveitarfélögunum fimm á svæðinu.“