Flugger
Flugger

Aðsent

Álver í Helguvík - hvað hefur tafið?
Mánudagur 15. apríl 2013 kl. 09:53

Álver í Helguvík - hvað hefur tafið?

Þann 23. apríl 2007 undirrituðu Hitaveita Suðurnesja hf og Norðurál samning um orku fyrir álver í Helguvík og var gert ráð fyrir afhendingu á 50 MW  1. sept. 2010, annarra 50 MW 1. nóv. 2010 og síðan 50 MW til viðbótar 1. janúar 2011 eða síðar þegar þau væru tilbúin til afhendingar.  Þrátt fyrir samninginn er í dag alls óljóst hvenær álverið kemst í rekstur. Fyrir því eru margar samverkandi ástæður og eru nokkrar þeirra nefndar hér að neðan. Þó að nokkur atriðin hafi nú verið leyst hafa þau í ferlinu tafið, valdið kostnaði og almennt séð unnið gegn verkefninu.  

Kröfur umhverfisyfirvalda á sínum tíma um sameiginlegt umhverfismat álvers, virkjana og háspennumannvirkja.

Tafir á gerð fjárfestingarsamnings við Norðurál.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bygging nauðsynlegra flutningsmannvirkja til flutnings orkunnar er enn ekki tryggð og liggur t.d. beiðni vegna eignarnáms óafgreidd á borði ráðherra atvinnuvega- og nýsköpunar. Bygging flutningsmannvirkja gæti orðið tímafrekasta verkefnið, næðust samningar um nauðsynlega orku, og þá tafið a.m.k. 1. áfanga þess.

Nýr raforkuskattur og hækkun annarra skatta á m.a. álver takmarkar möguleika Norðuráls til að greiða það orkuverð sem tryggt getur skilgreinda lágmarks arðsemi virkjana.

Mikil hækkun á flutningsgjöldum Landsnets (130% í ISK frá 2006 þar af 20% í USD um síðustu áramót) og mikil óvissa um framtíðarþróun flutningskostnaðar dregur úr arðsemi orkuframleiðslu og eykur áhættu.

Landsvirkjun hafnar aðkomu að verkefninu a.m.k. þangað til tryggð er orka frá öðrum framleiðendum (HS Orku eða OR).

Orkuveita Reykjavíkur á af margvíslegum ástæðum í erfiðleikum með að útvega umsamda orku umfram þau 47,5 MW sem þegar hafa verið afhent. Vegna mjög hertra reglna stjórnvalda um brennisteinsvetni, sem ganga umtalsvert lengra en almennt gerist í Evrópu, getur OR væntanlega ekkert virkjað frekar á næstu árum. Lausn á þessu vandamáli er mjög kostnaðarsöm, bæði í fjárfestingu og rekstri, sem dregur þá að sama skapi verulega úr arðsemi virkjana og líkum á að unnt verði að afhenda orku til álversins.
Miklar tafir á afgreiðslu rammaáætlunar og óljós staða fyrirtækja í orkuvinnslu.

Afgreiðsla virkjunarleyfis hjá Orkustofnun fyrir stækkun Reykjanesvirkjunar tók vel á annað ár og endaði með skilyrðum sem væntanlega draga umtalsvert úr arðsemi virkjunarinnar.
Sótt var um breytingar á aðal- og deiliskipulagi við Eldvörp til Grindavíkurbæjar þann 15. október 2007. Þeirri vinnu er nýlega lokið. Skipulagsstofnun ákvað síðan að rannsóknarboranirnar, gerð borteiga og borun, skyldi háð umhverfismati. Stendur matsvinna yfir og er áætlað að ferlinu ljúki í júlí n.k. en síðar ef kæruheimild verður nýtt.

Samstarfsyfirlýsing við Hafnarfjörð 30. mars 2006 varðandi nýtingu jarðhita í Krísuvík. Enn er unnið að gerð nýtingarsamnings við sveitarfélagið sem er eigandi lands og auðlinda og endanleg niðurstaða ekki ljós þó viðræður séu nú í jákvæðu ferli.
Með lögum sem sett voru í maí 2008 var gerð sú krafa að Hitaveitu Suðurnesja hf yrði skipt upp í tvö fyrirtæki. Það var mikið verkefni sem tók tíma og ljóst að fyrst á eftir var HS Orka ekki eins vel í stakk búin til að takast á við nauðsynleg stórverkefni eins og Hitaveita Suðurnesja var, sérstaklega varðandi lánsfjármögnun. Í framhaldinu á hins vegar HS Orka að geta verið öflugri framkvæmdaaðili vegna aðkomu einkaaðila og getur þá m.a. aflað hlutafjár til fjármögnunar arðbærra verkefna.
Síendurteknar yfirlýsingar aðila ríkisstjórnar og síðan þingsályktun Framsóknar um eignarhald orkuvinnslu hafa aukið óvissu sem ávallt vinnur gegn kostnaðarsömum verkefnum.
 
Hrunið með tilheyrandi almennum afleiðingum í efnahagslífinu.

Lágt álverð sem dregur mjög úr arðsemi virkjana og álvers.

Almennt lélegt ástand efnahagsmála sem gerir fjármögnun slíkra verkefna mun erfiðari.
 
HS Orka hefur enn ekki getað gengið frá orkusölusamningi við Norðurál um afhendingu á 150 MW. Ástæða þess að það hefur ekki tekist er einfaldlega sú að ýmis lykilskilyrði í samningi aðila frá 23. apríl 2007 hafa ekki verið uppfyllt svo sem skilyrði um lágmarks arðsemi o.fl.

Segja má að það eina sem eftir hefur gengið sé uppbygging aðstöðu af hálfu Reykjanesbæjar í Helguvíkurhöfn þrátt fyrir þrönga stöðu og litla aðstoð.

Fyrstu 13 atriðin hér að ofan snúa að hinum ýmsu hliðum stjórnsýslunnar (ríkisstjórn, Alþingi, stofnunum, sveitarfélögum og fyrirtækjum þeirra), næstu 3 atriðin að efnahagsumhverfinu almennt og hið síðasta, sem snýr að HS Orku, er í meginatriðum bein afleiðing af hinum 16 atriðunum.

Júlíus Jónsson
Forstjóri HS Orku hf