Orð og ábyrgð
Sveitarfélög vítt og breitt um landið hafa undirritað samninga um svokallaða samræmda móttöku flóttafólks. Samningarnir eru gerðir við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, ásamt fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Vinnumálastofnun. Sveitarfélög ákveða hversu mörgum flóttamönnum þau taka á móti samkvæmt samningnum en lengi vel voru það bara við hér í þessu ágæta bæjarfélagi sem vorum með samninga. Vegna mikillar neyðar í fjölda flóttafólks árið 2022 vorum við beðin um að taka við alls 350 einstaklingum sem við gerðum.
Samræmd móttaka flóttafólks er hugsuð fyrir þau sem fengið hafa alþjóðlega vernd á Íslandi og þurfa stuðning við að ná fótfestu hér á landi. Þessir einstaklingar hafa fengið íslenska kennitölu, þrá að fá að tilheyra samfélaginu okkar og verða þá að íbúum okkar.
Nú hefur verið í gangi starfshópur sem vinnur með þremur ráðuneytum (heilbrigðis-, mennta- og barnamálaráðuneyti auk félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) að því að fá alla saman að borðinu til að gera enn betri samninga á milli ríkisins og sveitarfélaga.
Það er að mörgu að hyggja. Það þarf að þjónusta fólkið og við þurfum aukið fjármagn í grunnskólana, leikskólana og fleiri innviði eins og á velferðarsviði. Samningur sem Reykjanesbær samdi um í apríl síðastliðnum felur í sér 250 einstaklinga og gildir til loka júní á þessu ári sem hægt er að framlengja. Þessir 250 einstaklingar eru á sínu fyrsta, öðru og þriðja ári hér á landi. Síðasti samningur Reykjanesbæjar hljóðaði upp á 350 einstaklinga og áætluð var að fækka samingnum niður í 150 en því miður þá gekk það ekki eftir.
Fjöldinn um síðustu áramót var um 250 og því alveg ljóst að við þyrftum að semja um þann fjölda við ráðuneytið til að fá fjármagn með þeim þar sem þessir einstaklingar eru nú þegar hjá okkur. Við erum ábyrg í fjármálum og við þurfum fjármagn með fólkinu sem við erum að þjónusta.
Það er ekki samt þannig að við séum að fá 250 einstaklinga á „einu bretti“ þegar blekið er komið á samninginn en oft ríkir misskilningur í umræðunni í þessum málum. Með samningnum er þetta fjármagn tryggt til að þjónusta umrædda einstaklinga. Þess má geta að umsækjendur um alþjóðlega vernd sem eru á vegum Vinnumálastofnunarinnar eru um 989 manns og hafa fækkað um 130 frá áramótum. Sá hópur er ekki á vegum Reykjanesbæjar.
Mér þykir miður að umræðan sé komin á þennan stað sem hún er á í dag en hún jaðrar við hatursorðræðu gagnvart þessum hópi. Bæjarfulltrúi Umbótar fullyrðir að um 85% bæjarbúa sé að móti þessum hópi en ég hef ekki orðið var við þessa könnun. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks kalla eftir fækkun hælisleitenda. Staðan er þó þannig að skjólstæðingar sem eru komnir með alþjóðlega vernd hér á landi fara inn í samning um samræmdu móttöku flóttafólks. Þá eru þau ekki lengur hælisleitendur. Nú þegar erum við með þennan fjölda í sveitarfélaginu og ég trúi því varla að vilji bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sé að stoppa fjármagn sem fylgir samningnum, hver á þá að borga?
Sigurrós Antonsdóttir,
bæjarfulltrúi Samfylkingar og formaður velferðarráðs Reykjanesbæjar.