Viðskipti

Þrekvirki unnið við að halda framleiðslunni órofinni og efla á sama tíma varnir fyrirtækisins
Meðfylgjandi myndir af starfshópum í HS Orku voru teknar af starfsmönnum fyrirtækisins. Stemmningin var góð!
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 1. desember 2023 kl. 09:44

Þrekvirki unnið við að halda framleiðslunni órofinni og efla á sama tíma varnir fyrirtækisins

Þótt vélar og búnaður hafi staðist prófið hefur öll starfsemin riðlast.

Óhætt er að segja að starfsfólk HS Orku hafi þurft að laga sig hratt að breyttum aðstæðum í umróti jarðhræringanna á Reykjanesskaga síðustu vikur. Enginn úr um 90 manna starfsliði fyrirtækisins er nú við störf á sinni hefðbundnu vinnustöð, ef frá eru taldir þeir fimm sem alla jafna eru staðsettir í Reykjanesvirkjun. Starfsfólk vinnur nú tímabundið á fjórum mismunandi starfsstöðvum auk þess sem þau, sem það geta, hafa komið sér upp vinnuaðstöðu heima fyrir. Þrátt fyrir allt umrótið hefur framleiðsla orkuversins í Svartsengi gengið óslitið.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sjaldan er ein báran stök

Þegar hættuástandi var lýst yfir þann 10. nóvember síðastliðinn var Svartsengi rýmt og því ekki lengur unnt að halda úti starfsemi í höfuðstöðvum fyrirtækisins, sem þar eru staðsettar. Í ofanálag stóð fyrirtækið frammi fyrir því að þurfa á sama tíma að rýma skrifstofuaðstöðu sína í Turninum í Kópavogi vegna viðgerða á húsnæðinu. Til viðbótar því að flytja allt starfsfólk framleiðslunnar úr Svartsengi í Reykjanesvirkjun, tækni- og iðnaðarmenn, lagerfólk og fleiri, varð að finna öðrum teymum fyrirtækisins tímabundið skrifstofuhúsnæði. Orðatiltækið sjaldan er ein báran stök átti svo sannarlega við á þessum tímapunkti.

Petra Lind Einarsdóttir, mannauðsstjóri HS Orku.

Kaos og ómanneskjulegt álag

„Fyrsta vikan var mjög kaótísk og nánast ómanneskjulegt álag á sumum, en það er að komast meiri rútína á hjá okkur þótt óvissan hangi enn yfir okkur. Við höfum ávallt lagt mikla áherslu á að hugsa vel um fólkið okkar og stjórnendur eru meðvitaðir um mikilvægi þess og eru í góðu sambandi við sitt fólk.“

Þetta segir mannauðsstjóri HS Orku, Petra Lind Einarsdóttir, sem fyrir hálfum mánuði varð að hafa hröð handtök í samstarfi við framkvæmdastjórn og finna nýjar starfsstöðvar fyrir hátt í 90 manns, nánast á einni nóttu. Skapa þurfti betri aðstöðu fyrir margfalt fleira starfsfólk í framleiðslu en venjulega er við störf í Reykjanesvirkjun. Einnig varð að finna aðstöðu fyrir hátt í 50 starfsmenn til viðbótar, sem starfa í ýmsum öðrum deildum fyrirtæksins, s.s. á tæknisviði, í auðlindastýringu, sölu og þjónustu, fjármálum, Auðlindagarði, upplýsingatækni og sjálfbærnideild.

Á víð og dreif um suðvesturhornið

„Við vorum svo lánsöm að fá inni á þremur mismunandi stöðum með nær engum fyrirvara“, segir Petra Lind. „Þróunarfélag Kadeco bauð okkur mjög góða aðstöðu á Ásbrú og þar fer virkilega vel um okkur. Við sem búum á Suðurnesjunum sækjum mest þangað. Eitt teymið á tæknisviði fékk inni hjá verkfræðistofunni Strendingi í Hafnarfirði, en við erum í samstarfi við þau um stækkun orkuversins í Svartsengi og verkefnið var komið vel á veg þegar þessi jarðskjálftahrina hófst. Við erum Strendingi og Kadeco afar þakklát fyrir húsaskjólið. Að endingu útvegaði Fasteignafélagið Eik okkur góða aðstöðu á fundahótelinu Akki í Ármúla á meðan húsnæðið, sem við leigjum af þeim í Turninum í Kópavogi, er í viðgerð.“

Órofin starfsemi þrátt fyrir fordæmalausar aðstæður

Merkilegt má teljast að tekist hafi að halda orkuverinu í Svartsengi gangandi í öllum hamagangi náttúrunnar að undanförnu. Mikið álag hefur verið á starfsfólki, ekki síst í framleiðslunni, sem haldið hefur starfseminni órofinni í gegnum allar jarðhræringarnar. Segja má að þrekvirki hafi verið unnið í til að halda framleiðslunni órofinni og efla á sama tíma varnir fyrirtækisins.

Einhverjar skemmdir hafa vissulega orðið á innanstokksmunum og útveggjum auk þess sem töluvert er af sprungum í vegslóðum og borteigum á svæðinu. Engu að síður hefur öll vinnslan orkuversins, hvort heldur er framleiðsla á heitu og köldu vatni eða raforku, gengið að óskum frá því að óvissustigi var lýst yfir þann 24. október síðastliðinn. Virkjuninni hefur nú verið fjarstýrt frá Reykjanesvirkjun í hálfan mánuð og má fastlega búast við því að þannig verði fyrirkomulagið það sem eftir lifir árs.

Hin daglegu verkefni hverfa ekki

„Það hefur orðið gríðarleg breyting á öllum þáttum starfsemi okkar,“ áréttar Petra. Við höfum öll þurft að yfirgefa höfuðstöðvar okkar, þar sem hjarta fyrirtækisins slær. Þótt vélar og búnaður hafi staðist prófið hefur öll starfsemin riðlast. Mörg stór verkefni eru á bið og mikill tími hefur farið í aðgerðir til að lágmarka skaðann ef til eldgoss kemur. Mikið er um fundi með viðbragðsaðilum og hagaðilum og sömuleiðis hefur neyðarstjórn HS Orku fundað reglulega, og stundum oft á dag, síðan þetta ástand hófst. Mikill tími hefur farið í fyrirbyggjandi aðgerðir og því hefur álagið verið gríðarlegt, ekki síst vegna þess að hin daglegu verkefni hverfa ekki.“

Óvissan er allra verst

Það er í verkahring mannauðsstjóra að reyna að tryggja góðar starfsaðstæður og búa þannig um hnútana að starfsfólki líði sem best í vinnunni. Síðustu vikur hafa reynst töluverð brekka í þeim efnum: „Við mannfólkið tökum misjafnlega á breytingum og á það eðlilega við okkar fólk líka. Það er misjafnt hversu mikil áhrif þetta ástand hefur á starfsfólk því búseta og verkefni fólks eru mjög mismunandi. Þau eru til dæmis nokkur úr okkar hópi sem þurftu að yfirgefa heimili sín í Grindavík og eru að takast á við miklar áskoranir því tengdu. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að miðla upplýsingum til starfsfólks á hverjum degi, jafnvel þótt ástandið sé óbreytt á milli daga, og fólk kann að meta það. Óvissan er allra verst.“

Samkennd og hjálpsemi stendur upp úr

Fjórar vikur eru nú liðnar síðan óvissustigi var lýst yfir vegna jarðhræringanna í grennd við Grindavík og mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim tíma. Ógjörningur er að segja hverju náttúran tekur upp á næstu vikur, mánuði og ár og hugur alls starfsfólks HS Orku er auðvitað fyrst og síðast hjá nágrönnunum í Grindavík sem vita ekki hvort og þá hvenær þeir geta snúið heim til sín á nýjan leik.

En á sama tíma ríkir áfram óvissa um það hvenær hægt verður að flytja aftur inn í höfuðstöðvar HS Orku í Svartsengi. Petra Lind segir með ólíkindum hve vel starfsfólk hefur brugðist við á þessum fordæmalausu tímum og þótt miklir erfiðleikar hafi steðjað að fyrirtækinu megi alltaf taka eitthvað jákvætt út úr kringumstæðunum: „Í öllum erfiðum breytingum er lærdómur og það sem ég upplifi er samkenndin og hjálpsemin sem maður finnur fyrir, hvort sem það er hjá okkar fólki eða samfélaginu í kringum okkur. Það eru allir tilbúnir að leggjast á eitt til að láta hlutina ganga sem allra best upp því nóg er af öðrum áskorunum.“