Pistlar

Góð veiði búin að vera haustið 2023
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 29. desember 2023 kl. 06:17

Góð veiði búin að vera haustið 2023

Síðasti pistill ársins 2023 og þar sem hann er í desember þá er sá mánuður nú iðulega frekar rólegur varðandi sjósókn.

Fyrir jólin komu allir togararnir og frystitogararnir í land og eru þeir allir stopp núna fram yfir áramótin.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Lítum aðeins á togarana. Baldvin Njálsson GK kom með 753 tonn til Hafnarfjarðar og ufsi uppistaðan í aflanum eða 311 tonn, þorskur var 272 tonn, Tómas Þorvaldsson GK kom með 479 tonn og var uppistaðan í aflanum þorskur eða 304 tonn, kom líka til Hafnarfjarðar.

Hjá ísfiskstogurunum var Sóley Sigurjóns GK kominn með 278 tonn í tveimur löndunum, Pálína Þórunn GK 195 tonn í þremur, Áskell ÞH 189 tonn í þremur, Vörður ÞH 173 tonn í þremur, Jóhanna Gísladóttir GK 149 tonn í þremur og Sturla GK 131 tonn í þremur. Allir lönduðu að mestu í Hafnarfirði.

Dragnótabátunum gekk nokkuð vel fram til jóla en veiðar í Faxaflóanum, eða Bugtinni, hættu um miðjan desember og því fóru systurbátarnir ekki marga róðra í desember. Siggi Bjarna GK með 29,5 tonn í sex róðrum og Benni Sæm GK með 55 tonn í fimm. Sigurfari GK fór í tíu róðra og var með 82 tonn, mest 27 tonn í einni löndun.

Frekar rólegt var hjá netabátunum. Friðrik Sigurðsson ÁR var með 67 tonn í tíu róðrum og Hraunsvík GK 15 tonn í aðeins þremur róðrum. Landað í Hafnarfirði.

Það voru nokkrir færabátar sem réru til jóla og meira að segja fóru tveir færabátar út frá Sandgerði annan í jólum; Dímon GK og Agla ÁR. Gekk þeim báðum nokkuð vel, hvor var með í kringum 1.200 kíló sem er nú nokkuð gott miðað við svona seint í desember. Dímon GK er kominn með um tæp 5 tonn í desember í fjórum róðrum. Agla ÁR kominn með um 2 tonn í tveimur og Guðrún GK komin með 3,5 tonn í tveimur.

Þegar þessi pistill er skrifaður eru ansi margir línubátar á sjó rétt utan við Sandgerði en fyrir jólin var veiðin hjá bátunum nokkuð góð. Lítum á nokkra. Margrét GK með 91 tonn í níu róðrum og mest 13 tonn, Sævík GK 71 tonn í átta og mest 12 tonn, Óli á Stað GK 64 tonn í átta og mest 11,5 tonn, Dúddi Gísla GK 69 tonn í níu og mest 11,1 tonn, Daðey GK 33 tonn í fimm og mest 8,9 tonn, Katrín GK 15,5 tonn í tveimur og mest 7,8 tonn, Geirfugl GK 13,5 tonn í þremur og Hulda GK 5,1 tonn í einum.

Tveir bátar frá Einhamri eru í Ólafsvík. Gísli Súrsson GK sem er með 107 tonn í tíu og mest 12,6 tonn og Auður Vésteins SU sem er með 104 tonn í tíu og mest 14,7 tonn. Vésteinn GK er ennþá fyrir austan og hefur landað 87 tonnum í fimm róðrum og mest 19 tonn í einni löndun.

Þar sem þetta er síðasti pistill ársins 2023 vil ég óska lesendum Víkurfrétta og þessara pistla mína gleðilegra jóla og gleðilegs nýs árs.

En árið 2024 byrjar eins og öll önnur ár á vetrarvertíðinni 2024 og miðað við hversu góð veiði var núna um haustið 2023 má alveg búast við því að veiðin verði góð á vertíðinni 2024 – og við munum sjá Erling KE fara á veiðar líka.